„Það er verið að drepa okkur með bið“

Mynd: Bríet Blær Jóhannsdóttir / Aðsend

„Það er verið að drepa okkur með bið“

20.06.2022 - 17:15

Höfundar

Trans konan Bríet Blær Jóhannsdóttir hefur verið á biðlista eftir kynleiðréttingaraðferð í eitt og hálft ár og segir líf sitt vera stopp þangað til henni er lokið. Hún geti ekki skipt um vinnu, farið í nám eða farið á stefnumót. Lítið er um upplýsingar og eru margar konur að gefast upp á biðinni.

Bríet Blær Jóhannsdóttir bíður kynleiðréttandi aðgerðar, en hún segir vera lífsspursmál fyrir margt trans fólk að biðlistinn styttist. Blær ræddi við Snærós Sindradóttur í Sunnudagssögum á Rás 2 um ákvörðunina á bak við nafnið sem hún valdi sér, hve langdregið kynleiðréttingarferlið er og hvernig húmorinn hefur bjargað henni.  

Nafnið hljómar eins og uppáhalds osturinn 

Bríet naut þeirra forréttinda að fá að velja sér sitt eigið nafn en það var meira en að segja það. „Þetta er í alvörunni svo erfitt, ég var að gera allar vinkonur mínar geðveikar,“ segir Bríet sem var sífellt að skipta um skoðun. „Ég fór í gegnum heilt ár þar sem ég lét alla kalla mig Blær, sem er millinafnið mitt. En það var einhvern veginn millistigssnafn fyrir mig.“ Nafnið Blær er nefnilega fremur kynhlutlaust og gat Bríet því heitið því án þess að þurfa að koma algjörlega út úr skápnum sem trans kona fyrir umheiminum. „En ég veit ekki hvern ég hélt ég væri að plata,“ bætir hún við og hlær.  

Nafnið Bríet varð fyrir valinu og eru nokkrar ástæður fyrir þeirri niðurstöðu. „Ég man bara að ég heyrði það og hugsaði: Ohh, þetta er svo fallegt nafn. Ég vildi að ég gæti heitið þetta,“ segir hún. „Svo áttaði ég mig á því að ég get heitið þetta, þetta getur alveg verið nafnið mitt.“ 

„En svo er náttúrulega þessi augljósa og sterka tenging við Bríeti Bjarnhéðinsdóttur sem mér þykir rosalega vænt um,“ segir Bríet um kvenréttindafrömuðinn. Það er þó önnur tenging sem stendur Bríeti nær hjarta. „Það er að nafnið hljómar smá eins og Brie ostur og mér finnst hann mjög góður.“ 

Djúpt sjálfshatur í birtingu kvenfyrirlitningar 

Þrátt fyrir að hafa sterka tengingu við baráttukonuna Bríeti Bjarnhéðinsdóttur hefur Bríet Blær ekki alltaf verið femínisti. „Það er ekkert skrifað í stein en það fylgir því oft að alast upp eins og ég elst upp, með þessar tilfinningar, er að það kemur inn smá hatur á allt sem gerir mig öðruvísi,“ segir Bríet. „Ég var ekkert vond, ég hataði ekkert konur. En það var alltaf þessi togstreita.“  

Hún segist alltaf hafa verið fljót að stökkva á alls konar hatursvagna þegar vinsælt þótti að tala illa um ákveðnar konur og nefnir þar sem dæmi söngkonuna Britney Spears. „Ég get ekki útskýrt það betur en að þetta hafi verið djúpt sjálfshatur sem var í gangi,“ segir hún.  

„En svo fatta ég hvað ég er, og það tók mig ótrúlega langan tíma að fatta það,“ segir Bríet. „Og eftir það breytist ég í raun og veru.“ Hún hafi farið að hugsa meira um réttindi kvenna og reynt að átta sig á hvað olli þessu hatri hjá henni. „Það er í rauninni bara kvenfyrirlitning sem mér var kennd af umhverfinu mínu frá því að ég fæðist.“ 

„Ég náttúrulega að tala um það að ég sé besti femínistinn því ég breyti mér í konu,“ segir Bríet og hlær. „Ég hef ekki séð neina femínista aðra en trans konur gera þetta.“ 

„Þetta er bara tálsýn“ 

Bríet er í miðju kynleiðréttingarferli og hefur þurft að bíða eftir að komast í aðgerð, eða frá því í nóvember 2020. „Ég hélt rosalega lengi að þetta væri bara covid að kenna. Og ég sparkaði svo lengi í sjálfa mig,“ segir hún sem hélt að ferlið tæki einungis um ár. „Svo lengi yfir því að hafa ekki byrjað á þessu ferli fyrr. Hugsaði að ef ég hefði byrjað fyrir covid, þegar ég áttaði mig á þessu, þá væri þetta allt löngu búið.“ 

Seinna komst Bríet þó að því að þetta ferli er aldrei svo stutt. „Mér var sagt þegar ég fer og fæ að fara á biðlista að venjulega er biðtíminn eitt ár,“ en vegna faraldursins hafi biðtíminn lengst í tvö ár. „En svo talaði ég við aðra stelpu sem beið í fjögur ár, fyrir covid.“ Bríet var í vinnunni þegar hún frétti þetta og þurfti að fara afsíðis vegna þess að yfir hana helltist kvíðakast á miðjum lagernum.  

„Því ég áttaði mig á að þetta er bara tálsýn. Þetta var aldrei að fara að gerast á svona stuttum tíma,“ segir Bríet. „Þannig ég held að það sé eitthvað mikið meira í gangi í þessu kerfi, annað en covid.“ 

„Þurfum að setja á okkur skjöld og láta okkur hafa þetta“ 

Ferlið hófst þannig að Bríet pantaði sér tíma hjá heimilislækni og fékk þaðan tíma hjá transteyminu. Í kjölfarið hafi boltinn farið að rúlla. „Þetta er ekki frábært, þetta er ekki geggjað ferli, þetta er ekki gaman,“ segir Bríet. „Ekki að það sé eitthvað niðrandi að það sé gefið í skyn að maður sé með geðsjúkdóm, það er ekkert slæmt að vera með geðsjúkdóm, það er hægt að vinna með því eins og öllu öðru.“ Henni þyki þó erfitt að ástand hennar sé meðhöndlað af fagmönnum líkt og hún væri með geðsjúkdóm, að hún hafi þurft að fara upp á Klepp og svara löngum spurningalista. „Og hvort að það sé undirliggjandi ástæðan fyrir því að mig langi til að gera þessa stóru breytingu á lífi mínu.“ 

„Þetta er ekki gert til þess að vekja traust á ferlinu,“ segir hún og bætir við að allar þær sem fari í gegnum þetta ferli viti að þær þurfi að setja upp skjöld og láta sig hafa þetta. „Því þetta er í rauninni eina leiðin fyrir okkur til þess að fá það sem við viljum.“ 

Hefur ekki heyrt píp frá transteyminu 

Eftir að ferlið er hafið tekur við biðtími. „Í gamla, gamla daga – fyrir svona fimm árum,“ segir Bríet sposk. „Þá var það þannig að maður þurfti að fara í tíma hjá geðlækni og tveimur öðrum læknum. Þá þurfti maður að lifa sem kona í heilt ár til þess að geta fengið að byrja á hormónum.“ Bríet segir að sem betur fer sé ekki farið þannig að í dag. „Að gera þetta ekki þannig gerir fólki kleift að halda sér inni í skápnum fyrir sig og byrja svo á hormónum. Og koma út úr skápnum þegar þér líður eins og þú sért manneskjan sem þú vilt að fólk sjái.“ Hún er mjög þakklát fyrir þessar breytingar. 

Nú sé þetta þannig að viðkomandi fer til þriggja mismunandi lækna og hittir hvern þeirra tvisvar sinnum. Eftir það getur liðið hátt í ár þangað til tími fæst hjá innkirtlalækni sem veitir hormónagjöf og lyf sem hindra framleiðslu líkamans á testósteróni. „Og þaðan er maður þannig séð útskrifaður úr þessu,“ segir Bríet. „Eða þannig upplifi ég þetta. Ég hef ekki heyrt píp frá transteyminu síðan þá.“ Fyrir utan tímann í nóvember árið 2020 þegar hún fer á biðlista fyrir kynleiðréttingaraðgerðina. „Og það er það síðasta sem ég heyrði. Og það var fyrir fimm hundruð og ég ætla að skjóta á áttatíu dögum núna.“ 

„Líf mitt er stopp þangað til“ 

Bríet segir að hver dagur sem hún er með röng kynfæri sé tapaður dagur í hennar lífi. Hún líkir þessu við sís-kynja konur sem byrjuðu í réttum líkama með rétt kynfæri. „Ég er 27 ára, að verða 28 ára, og ég er enn að bíða eftir að fá það sem aðrir fengu að byrja með. Líf mitt er í rauninni stopp þangað til ég fæ það,“ segir hún.  

„Ég get ekki gert neitt. Ég get ekki hætt í vinnunni, get ekki farið í skóla, get ekki flutt úr landi. Það er allt á pásu hjá mér og er búið að vera síðan ég áttaði mig á þessu þegar ég var 22 ára,“ segir Bríet. Þetta sé vegna þess að hún sé búin að vinna sér inn veikindaleyfi hjá vinnunni sinni sem tapist ef hún færir sig annað, byrjar í námi eða flytur. „Ég vil halda í þetta veikindaleyfi bara svo ég geti fengið að jafna mig í friði. Og það er það sem heldur mér fastri þar sem ég er.“ 

Hún segist þó ekki þekkja nákvæmlega hvernig þetta ferli virki vegna þess að samskiptin frá teyminu séu lítil sem engin. „Allt sem ég veit er eitthvað sem ég annaðhvort geri ráð fyrir eða hef gúglað og komist að,“ segir hún. „En eins og ég segi, ég veit ekki alveg hvernig þetta virkar en svona var þetta útskýrt fyrir mér og þannig skil ég það.“ 

„Húmorinn er það sem bjargar mér“ 

Þau sem fylgja Bríeti á Twitter hafa kannski tekið eftir að hún hefur rosalega gaman af að skrifa og tjá sig í rituðu máli. „Mig hefur alltaf dreymt um að læra það og gera það að lífi mínu, að skrifa,“ segir hún og bætir við að það skipti í raun ekki máli hvort það sé skáldskapur eða fjölmiðlatengt. „Ég tjái mig ekkert ógeðslega vel í orðum, en þegar ég fæ að setjast niður og skrifa þá er það staðurinn sem ég fæ að skína og get komið öllu frá mér á miklu betri hátt.“ 

Bríet notar húmorinn óspart og hafa fylgjendur hennar fengið að kynnast því vel. „Ég er rosalega þunglynd og það bara stemmir frá lífi mínu og hvernig ég hef þurft að lifa því. En húmorinn er í rauninni það sem bjargar mér,“ segir hún. „Og að gera grín að hlutum er hvernig ég kemst í gegnum það.“ 

„Ef ég get ekki hlegið að lífinu mínu þá veit ég ekki hvað ég myndi gera,“ segir Bríet. 

Skuldar þeim ekki að hlusta 

Bríet segist gera grín að virkilega óviðeigandi hlutum sem tengjast henni sjálfri. En hún færi aldrei að skjóta á þann hátt á aðra, það þyki henni ljótt. Sem dæmi um þetta má nefna grínistann Dave Chappelle sem gerði grín að LGBT+ baráttunni og sagðist standa með TERF-istum, hópi fólks sem útilokar trans konur frá femínistabaráttunni og segir þær ekki vera konur.  

„Ég veit alveg að það er rosalega mikið af fólki sem hatar trans fólk af einni ástæðu eða annarri,“ segir Bríet. „Þetta er eins og með mig, þegar ég hataði konur. Hvort þetta sé eitthvað sem þau eru þá að reflecta á trans fólk, að það þurfi alltaf að vera einhver vondi kall. En ég skulda þeim ekki að hlusta á þetta,“ segir Bríet sem kærir sig ekki um slíka orku.  

Hún segist til að mynda ekki geta ferðast ein til útlanda vegna þess að það sé ekki öruggt fyrir hana.  Sem dæmi má nefna að á síðasta ári hafa hatursglæpir gegn trans fólki í Skotlandi aukist um 80 prósent. Hana langar þó rosalega mikið að fara út en þyrfti að hugsa sig vel um fyrst. 

„Er það sem ég er að kveikja í honum?“ 

Það getur verið erfitt að finna sér maka þegar verið er að ganga í gegnum kynleiðréttingarferlið og segist Bríet ekki hafa gert mikið af því að fara á stefnumót. „Ég set þann standard að mér verði að líða vel með sjálfa mig, og mér líður ekki vel með sjálfa mig fyrr en ég er búin að fá að komast í þessa aðgerð,“ segir Bríet. „Kannski finn ég einhvern ógeðslega yndislegan mann sem er bara alveg sama og þá er það bara geggjað,“ en eins og staðan er núna sækist hún ekki eftir því. 

„Ég vil ekki lítillækka mig með því að segja þetta, en þetta er svolítið svona kink dæmi,“ segir Bríet og á þá við að margir menn hlutgeri trans konur á þann hátt að þeir fái eitthvað út úr því að sofa hjá þeim áður en þær fara í aðgerðina. „Það er alltaf eitthvað sem ég þarf að hafa í huga þegar ég er að kynnast karlmönnum. Hefur hann áhuga á mér eða er það sem ég er að kveikja í honum? Er eitthvað annað við mig en bara það að ég sé trans kona sem er ekki búin að fara í aðgerð?“ 

Hún hafi oft lent í slíkum karlmönnum og oft þurft að vera leyndarmál þeirra sem hún er að hitta. Hún segir að auðvelt sé að sjá í gegnum slíka menn, hún þurfi bara að spyrja sig hvort þeir myndu kynna hana fyrir mæðrum sínum eða vilja borða með sér á almannafæri. „Ef hann skammast sín fyrir þig þá er hann ekki að deita þig fyrir þig, heldur er hann að nota þig eins og kynlífsdúkku.“ 

„Ég held að partur af ástæðunni fyrir því að það hefur ekkert gerst hjá mér í langan tíma er að á einhverjum tímapunkti ákvað ég að ég er búin að vera leyndarmál og vil ekki vera það lengur,“ segir Bríet sem var lengi vel leyndarmál fyrir sjálfri sér og hefur fengið nóg. 

Á ekki að þurfa að nöldra sig í lífsnauðsynlega aðgerð 

Bríet hefur enga hugmynd um hvenær hún fær að komast í aðgerðina og segir engin svör að fá neins staðar. Hún segir að undanfarnir mánuðir hafi sýnt að það hafi ekki verið faraldurinn sem stöðvaði ferlið þar sem engin hreyfing hefur verið á meðan tilfellin voru fá. „Ef ég þyrfti að giska þá væri það fjármagn í rauninni,“ segir hún.  

„Mér líður stundum eins og ég eigi að vera að gera meira, panta tíma hjá lækni,“ segir Bríet. Hún er þó í fullri vinnu og bíllaus og hefur ekki tíma til þess að gera sér ferð niður á Landsspítala reglulega til að spyrja spurninga. „Ég veit ekki hvernig hægt væri að leysa úr þessu öðruvísi en að tala meira við okkur,“ segir hún. 

Hún þekkir til einnar konu sem þurfti að nöldra til að komast í aðgerðina. Það gerði hún með því að panta sér tíma í hverjum mánuði hjá læknum transteymisins og sat hjá þeim þangað til henni var leyft að fara. „Sem er geggjað ef þú hefur tíma fyrir þetta. Ég hef ekki tíma og þetta á ekki að virka svona,“ segir Bríet. „Við eigum ekki að þurfa að nöldra okkur leið inn í lífsnauðsynlega aðgerð, sem þetta er.“ 

Biðtíminn sem styttir sig sjálfur 

Aðgerðin er ekki flokkuð sem lífsnauðsynleg af mörgum sem þurfa hana ekki og því er ásættanlegt að biðtíminn sé langur. „En þetta er það. Og ég hef heyrt frá svo mörgum að þær eru alveg að gefast upp,“ segir Bríet. „Þessi bið er að drepa fólk. Það er verið að drepa okkur með bið.“ Vinur hennar hafi kallað listann eftir aðgerðinni biðlistann sem styttir sig sjálfur. „Sem er ógeðslegt en satt.“ Enda hafa rannsóknir sýnt að sjálfsvígshugsanir eru hærri á meðal trans fólks en hjá öðru fólki.  

Bríet segir að transferlið sé ævilangt, hún þurfi að taka lyf á hverjum degi og líkaminn muni halda áfram að taka breytingum út ævina. „En þetta er eins nálægt því og ég get komist að setja slaufu á þetta, klára þetta,“ segir hún. „Að geta gert hluti eins og annað fólk eins og að fara í sund, ganga um í þröngum buxum án þess að hafa áhyggjur af því að fólk sé að horfa á klofið á mér. Þessir sjálfsögðu hlutir sem fólk gerir,“ segir Bríet og bíður með eftirvæntingu eftir símtalinu sem mun breyta lífi hennar. 

Rætt var við Bríeti Blæ Jóhannsdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2. Viðtalið má hlusta á í heild sinni hér.  

Tengdar fréttir

Mannlíf

Getur ekki lýst hve særandi pistillinn var

Mannlíf

Föst með strákum því það mátti ekki sveigja reglurnar

Aukin bið eftir meðferð veldur transfólki vanlíðan