„Þetta náði eiginlega að buga mig“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þetta náði eiginlega að buga mig“

19.06.2022 - 10:00

Höfundar

Fyrir ári síðan synti kappinn Sigurgeir Svanbergsson yfir Kollafjörð án þess að hafa mikla sundreynslu. Hann segist hafa farið yfir á þrjóskunni, svo erfið var förin. Nú ætlar hann að reyna við opið haf og synda frá Vestmannaeyjum í land til styrktar góðu málefni.

Sjósund nýtur vaxandi vinsælda, en það eru þó fáir sem leggjast til sunds á hafi úti og synda langar leiðir. Það ætlar Sigurgeir Svanbergsson hins vegar að gera í næsta mánuði þegar hann hyggst synda frá Vestmannaeyjum að landi. Allt er þetta gert til styrktar góðu málefni en Sigurgeir safnar áheitum til styrktar Barnaheillum og mun allt safnað fé renna til stuðnings börnum sem búa á átakasvæðum. 

Gekk vel en ekki átakalaust  

Þetta er í annað sinn sem Sigurgeir leggur í slíka svaðilför en í fyrra synti hann yfir Kollafjörð, þá til styrktar Einstökum börnum. „Það gekk vel, þetta kláraðist en með alls konar veseni,“ segir Sigurgeir í samtali við Huldu G. Geirsdóttur og Snærósu Sindradóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2. Fylgdarbáturinn varð vélarvana og endaði Sigurgeir á að þurfa að synda í kringum hann í eina og hálfa klukkustund að bíða eftir nýjum. Meðan á því stóð breyttust straumar í firðinum og í kjölfarið lenti Sigurgeir í miklum mótstraumi. „Þetta tók níu klukkutíma því ég missti af öllum straumum líka, fékk allt í bringuna á mér.“ 

Verður alltaf að prófa eitthvað aðeins erfiðara

Sigurgeir hafði engan sérstakan bakgrunn í sundi áður en hann þveraði Kollafjörð, einungis skólasund. „Það er ástæðan, ég hef mikinn áhuga á að setja mig í aðstæður sem eru bara mjög krefjandi,“ segir hann. „Það er svo áhugavert að sjá hvert hausinn fer þegar maður er kominn út í eitthvað sem er eiginlega bara ómögulegt.“ Hann talar því um að hafa farið þessa leið á þrjóskunni. 

Sigurgeir bæði æfir og þjálfar bardagaíþróttina Lethwei hjá Iceland Combat Arts og komst ekki á mót sökum faraldurs. „Ég átti að vera að fara út að keppa á heimsmeistaramóti en covid skemmdi það. Svo var alltaf verið að teygja þetta einhvern veginn og ég fékk engin svör. Svo ég þurfti að finna mér eitthvað annað að gera,“ segir hann.  

„Þetta var það erfitt og náði svona eiginlega næstum því að buga mig,“ segir Sigurgeir. „En þá verð ég alltaf að fara örlítið lengra og prufa eitthvað aðeins erfiðara.“ 

Skildi eftir sig æluslóð 

Þrátt fyrir að ferðin á milli Heimaeyjar og Landeyjasands sé jafn löng í kílómetrum talið og Kjalarnes að Bryggjuhverfinu í Grafarvogi, um 12 kílómetrar, verður komandi sundferð mun erfiðari. „Þetta er náttúrulega opið haf. Ég veit í rauninni ekkert hvað ég er að fara út í, þannig séð.“ 

Í þetta skiptið verður Sigurgeir þó mun skipulagðari heldur en í fyrra. „Ég ætla að hafa margt í huga sem ég var ekki með þá,“ segir hann og tekur sem dæmi að hann ætli að taka með sér kajak fyrir nesti og gera betri bátaráðstafanir. „Ég ætla líka að æfa matargjöfina betur. Í fyrra þá gerði ég það ekki og þetta endaði með því að ég var ælandi síðustu þrjá tímana. Það var eiginlega æluslóð eftir mig alla leiðina,“ segir hann og bætir við að hann ætli líka að huga betur að sjóstraumunum.  

Eitt af hverjum sex börnum á átakasvæðum 

Sigurgeir ætlar að styrkja börn sem búa á átakasvæðum í gegnum Barnaheill, en hann telur stuðninginn afar nauðsynlegan. Nú á dögum býr eitt af hverjum sex börnum í heiminum, eða 450 milljónir barna, á átakasvæðum og er það 5% aukning frá árinu áður.  

Í fyrra synti Sigurgeir einnig til styrktar börnum, þá í gegnum Einstök börn - stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni. Hann segir málefni barna standa sér nærri vegna varnarleysis þeirra.  

Allur röndóttur eftir marglyttur  

Sigurgeir býr austur á fjörðum og er staddur í Reykjavík um þessar mundir til þess að æfa sig fyrir sundið. „Heima hjá mér fyrir austan er sjórinn bara fjórar gráður og mjög erfitt að synda í honum.“ Hann segist ætla að reyna að komast til Vestmannaeyja og skoða aðstæður en er ekki viss hvort það takist.  

Upphaflega ætlaði Sigurgeir að synda frá Reyðarfirði yfir til Eskifjarðar en þar eru aðstæður allt aðrar og fjörðurinn fylltist af marglyttum. „Ég ætlaði að þrjóskast en svo fór ég þarna í æfingasund fyrir austan og kom upp úr allur röndóttur,“ segir Sigurgeir og þurfti því að yfirfæra plön sín á Kollafjörð. „Við ákváðum að kannski væri þetta ekkert sérlega sniðugt.“  

Þarf ekki að hræðast sjódýrin 

En hvað með sjódýrin? „Það er sko bara vika síðan ég fór að pæla í þessu,“ segir Sigurgeir. „Ég fór að hugsa, hvar eru háhyrningarnir eiginlega?“  

Sigurgeir fór að lesa sér til um háhyrninga og uppgötvaði að urmull af þeim væri á þessu svæði. „Ég stressaðist aðeins við það, ég viðurkenni það,“ segir hann. „Ég ætti örugglega að vera kominn með doktorsgráðu í háhyrningum núna því ég las allt um þá! Bara til að vita hvað ég væri að fara út í.“ 

„En það er eitthvað sem ég þarf ekki að óttast,“ segir hann. „Þeir vilja okkur ekkert, þegar þeir koma og kíkja á okkur þá er það yfirleitt forvitni eða þeir halda að við séum selir.“ Sigurgeir lýsti því þannig að þetta væri svolítið eins og að fara á jólahlaðborð og vera japlandi á blómunum í vösunum, það væri bara fáránlegt því það er svo margt annað spennandi í boði.  

Vitað er um fimm einstaklinga sem hafa þreytt sundið og tekist en engar tölur eru um hve margir hafa reynt. Sigurgeir hefur verið í sambandi við nokkra heimamenn í Eyjum, þá sem þekkja best til og segir alla virkilega spennta fyrir þessu verkefni. „Og þau vilja allt fyrir mig gera til að hjálpa mér,“ segir Sigurgeir sem leggur af stað í lok júlí.  

Rætt var við Sigurgeir Svanbergsson í Morgunútvarpinu á Rás 2. Viðtalið má hlýða á í heild sinni í spilaranum hér að ofan.