Hefði ekki lifað þetta af ekki væri fyrir húmorinn

Mynd: RÚV / RÚV

Hefði ekki lifað þetta af ekki væri fyrir húmorinn

18.06.2022 - 11:00

Höfundar

„Ef mér hefði ekki þótt allt svona rosalega fyndið þá hefði ég sennilega drepið mig,“ segir rithöfundurinn Auður Haraldsdóttir. Í barnaskóla var hún mikið lögð í einelti og hafði kennarinn forgöngu í því. Auður sendi nú á dögunum frá sér nýja bók, þá fyrstu í þrjátíu ár.

Rithöfundurinn Auður Haraldsdóttir var að senda frá sér nýja bók, fyrstu bókina í þrjátíu ár. Sú heitir Hvað er drottinn að drolla en Auður er þekktust fyrir Hvunndagshetjuna og bækurnar um Elías sem slógu í gegn hér á árum áður. Auður ræddi við Gunnar Hansson í Mannlega þættinum á Rás 1 um lífið og tilveruna og tortryggni sína gagnvart trúarbrögðum. 

Auður er með skemmd egg í nesti 

Auður er fædd og uppalin í miðbæ Reykjavíkur, á Laugaveginum. Eftir gagnfræðaskólann fór Auður beint að vinna því skólaárin þóttu henni erfið og hundleiðinleg. „Eineltið var svona aðalorsökin,“ segir Auður. Það var kennari Auðar sem hafði forgöngu í stríðninni. „Sem mér fannst glæsilegt hjá honum, svona eftir á,“ bætir hún við.  

„Hann tók ekki bara þátt heldur var hann svona forystusauður. Ég fékk eina athugasemd á dag hjá honum, lágmark.“ Háðsglósur kennarans gáfu þó bekkjarsystkinunum ekkert eldsneyti því þau gátu alveg fundið sitt eigið efni. „Þau gátu ekki farið út í svona framandi mál eins og kennarinn gerði,“ segir Auður og tekur sem dæmi hvernig hann stríddi henni daglega.  

„Auður er með skemmd egg í nesti, hrópaði hann yfir bekkinn. Sjáið þessi egg eru skemmd. Móðir hennar lætur hana hafa skemmd egg.“ En það sem kennarinn vissi ekki er að ef harðsoðin egg eru geymd í ísskáp yfir nótt myndast gjarnan græn himna á rauðuna. „Maðurinn var bara svo illa að sér,“ segir Auður. „Og ég fékk oft egg á nestið svo hann gat talað mikið um þetta.“ 

„Hann hefði átt að undrast að ég skyldi ekki deyja, ég var alltaf að borða þessi eitruðu egg.“ 

Skammaðist sín fyrir skrifin og fargaði öllu 

Auður hefur alla tíð lesið sér mikið til skemmtunar en á heimilinu var einungis til takmarkað magn af bókum. „Ég var löngu búin með þær og við máttum ekki fara á safnið. Svo það var bara að lesa þær sömu aftur og aftur,“ segir hún. „Það er bara nýlega sem ég kann ekki lengur utanbókar textann af Á hverfandi hveli, sem var eitt þúsund síður.“ 

Um leið og Auður var orðin læs fór hún að skrifa eigin sögur. „Fólki þótti lítið varið í þetta, og ég skil það vel,“ segir hún. „Maður komst svo á þennan aldur að skammast sín fyrir þetta og þar fékk ég drjúga aðstoð frá systur minni sem níddi allt niður sem ég gerði, var og stóð fyrir.“ Henni þótti því auðgert að farga því sem hún hafði skrifað og á því ekkert lengur frá þessum tíma.  

Auður segist hafa lagt skrifin á hilluna í nokkur ár en þegar systir hennar kynntist ítölskum manni og flutti út fór hún að skrifa bréf. „Það var enginn sem nennti eða gat skrifað bréf í fjölskyldunni svo ég gerði það.“ Hún segir að hinir í fjölskyldunni hafi skrifað bréf á jólunum og þar hafi innihaldið verið: „Við áttum öll afmæli í ár, gleðileg jól.“ Hún tók því upp á því að skrifa bréf sem urðu lengri og lengri eftir því sem leið á, hátt í 50 blaðsíður. „Stundum þurfti ég tvö umslög.“ 

Hún segist hafa skrifað allan fjandann niður í þessi bréf til systur sinnar. „Það er ekkert svo ómerkilegt að það sé ekki hægt að skrifa heila blaðsíðu um það,“ segir hún og lýsir því hvernig hægt sé að sjá mann úti um gluggann og endalaust velta vöngum um hann.  

Lífið óhugnanlega vont en um leið ofboðslega gott  

Fyrsta bók Auðar, Hvunndagshetjan sem kom út árið 1979, hafði undirtitilinn: Þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn. Það er því ljóst að sjaldan hefur verið langt í húmorinn hjá Auði. „Ef mér hefði ekki þótt allt svona rosalega fyndið þá hefði ég sennilega drepið mig,“ segir hún. „Daglega eða vikulega, ég hefði ekki lifað þetta af.“ 

„Lífið er óhugnanlega vont hjá öllum og um leið er það ofboðslega gott,“ segir Auður. „Þetta er spurning um hvort þú sérð hálffullt glas eða hálftómt.“ 

Bókin vakti um leið mikla athygli og dæsir Auður yfir minningunni. „Ég er bara orðin svo þreytt á þessu,“ segir hún og hlær. „Það var bæði gaman og ekki gaman, svona ofboðslega mikið er áreiti.“ Þá á hún við um fólk sem hringdi í hana dag og nótt til þess að ræða við hana. „Það er enginn friður.“ 

„Ég held að oftast vildi það segja frá sjálfu sér,“ segir Auður um fólkið sem hafði samband. „Þegar ég var ung las ég í Readers Digest: Finnst þér ekki fólk leiðinlegt sem talar svo mikið um sjálft sig að þú kemst ekki að til að tala um sjálfa þig?“ Hún segist hafa tekið eftir því að þetta sé satt, flestir vilji tala um sig sjálfa. 

Fertugur og margfráskilinn Elías freistandi 

Auður er einna helst þekktust fyrir bækurnar sínar um Elías sem var hormónafullur unglingur sem átti í stormasömu sambandi við móður sína. „Það var einhver sem kom að máli við mig um daginn og sagði: Þú verður að skrifa aðra bók um hann Elías. Og hafa hann fertugan og margfráskilinn,“ segir Auður og þykir hugmyndin freistandi.  

„Ég spurði alltaf í hvert skipti sem ég samþykkti að skrifa einn Elías í viðbót, þá sagði ég: Má ég í þessari bók láta hann verða undir vörubíl í lokin?“ Hana langaði til að losna undan persónunni og gera eitthvað annað. „Ég hafði engan áhuga á að vera alltaf að endurtaka Elías.“ Svarið hafi alltaf verið að forlagið vildi meira. „Ég hugsaði að þetta væri bara iðnaður.“ 

„Hvar heldur þú að guð sé?“ 

Nú eru þrjátíu ár liðin frá því að Auður gaf síðast út bók en hennar nýjasta ber titilinn Hvað er drottinn að drolla? Þarna segist Auður vera að skamma guð. „Af hverju gerir hann ekki neitt ef hann er að gera svona mikið í okkar málum?“ spyr hún. 

„Kannski er ég nú meira að skamma þetta fólk sem trúir svona mikið,“ bætir hún við. „Situr bara og bíður eftir að guð sjái um þetta.“ Hún segist ekki vera hrifin af slíkum trúarbrjálæðingum. Auður segist lengi vel hafa haldið að guð væri í Bangladess, því ekki var hann á Íslandi. En svo hélt fólk áfram að brenna inni í verksmiðjum svo ekki gat hann verið þar. „Ég sé ekki nógu mikið af þessum kærleika sem fanklúbburinn er alltaf að hamra á. Ég missi alltaf af honum.“ 

Skrifaði bók á 10 vikum 

Auður segist hafa nánast verið hætt að skrifa en svo hafi hún átt samtal við Hrafn Jökulsson, rithöfund, sem spurði hana hvort hún gæti skrifað bók á tíu vikum, líkt og hinir stóru rithöfundar gerðu hér á árum áður þegar þeir birtu einn kafla á viku í tímaritum. „Ég hélt það nú,“ segir Auður. „Enda datt mér ekki í hug að það stæði mér til boða.“ 

Hrafn bauð henni að skrifa slíka bók og hann myndi birta hana á netinu. „Ég sagði: Jú, ég get bara gert það. Og svo gerði ég það!“ segir Auður. Síðar hafi Jóhann Páll Valdimarsson, útgefandi Forlagsins, athugað hvort hún vildi gefa verkið út. „Ég sagði nei, hún ber það ekki.“ 

Síðar hafi Valdís Óskarsdóttir spurt hvort Auður ætti eintak af bókinni, hana langaði til þess að lesa hana. Auður hafði þá samband við Hrafn sem gat útvegað henni prentað eintak á örskotsstundu. „Ég las hana og ég var svo undrandi á hvað hún var góð,“ segir Auður. „Ég mundi náttúrulega ekki orð úr henni þannig að það sem ég sá var ég að lesa í fyrsta sinn. Og hún var bara margfalt betri en ég átti von á.“ 

„Þegar við vorum búnar að lesa hana fannst okkur allt í einu að þetta ætti bara að koma út.“  

„Ef þú getur ekki hlegið að sjálfum þér geturðu alveg eins lagst niður og dáið“ 

Bókin fjallar um pláguna svarta dauða sem skók Evrópu á 14. öld og trúarbrögðin sem gátu ekki bjargað fólkinu. „Fólk var rekið inn í kirkju að biðja, og það bað og bað og bað. Og það bar sig til blóðs og hætti að borða og gerði allt sem hægt var að gera til að þóknast guði. En samt hélt þetta bara áfram og fólk dó eins og flugur.“ 

Bókin inniheldur þó einhvern húmor eins og Auði einni er lagið. „Ef þú getur ekki hlegið að sjálfum þér og því sem er í kringum þig, geturðu alveg eins lagst niður og dáið,“ segir hún.  

Rætt var við Auði Haraldsdóttur í Mannlega þættinum á Rás 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér.  

 

Tengdar fréttir

Innlent

„Konur eru ennþá hálf-ósýnilegar“

Menningarefni

Konur þurftu ekki menntun