Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Frumvarp um sorgarleyfi orðið að lögum

16.06.2022 - 14:12
Kona heldur utan um hönd ungbarns.
 Mynd: Gölin Doorneweerd - Swijnenburg - Freeimages
Frumvarp um sorgarleyfi var samþykkt einróma við þinglok í gær og er orðið að lögum. Lögin tryggja foreldrum sem missa barn sitt leyfi frá störfum auk þess sem þeir fá greiðslur til að koma til móts við tekjutap. 

Vinnsla frumvarpsins fór af stað fyrir um tveimur árum en afgreiðsla málsins frestaðist vegna kórónuveirufaraldursins. Lögin öðlast gildi í janúar á næsta ári. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra segir miklu skipta að sjá sorgarleyfi loks verða að veruleika. 

„Þetta er búið að vera í undirbúningi í ráðuneytinu í alllangan tíma. Ég lagði þetta fram í vor og núna er búið að samþykkja þetta. Það er ofboðslega mikilvægt að við getum með þessu móti tekið betur utan um barnafjölskyldur sem missa barn sitt.

Mynd með færslu
 Mynd: Kikkó - RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Með lögunum er foreldrum á vinnumarkaði sem verða fyrir barnsmissi tryggður réttur til sorgarleyfis í sex mánuði sem og greiðslur til að koma til móts við tekjutap á tímabilinu. Hámarksgreiðslur verða 600 þúsund krónur á mánuði. Einnig er gert ráð fyrir að foreldrar geti nýtt rétt sinn til sorgarleyfis samhliða skertu starfshlutfalli og einnig yfir lengra tímabil.

Mynd með færslu
 Mynd: Sorgarmiðstöðin
Karólína Helga Símonardóttir formaður Sorgarmiðstöðvarinnar.

Mikilvægt að viðurkenna sogarúrvinnslu

Karólína Helga Símonardóttir formaður Sorgarmiðstöðvarinnar segir að miðstöðin fagni þessu, loksins sé mikilvægi sorgarúrvinnslu staðfest en að þau líti á þetta sem fyrsta fasa af mörgum. Styðja þurfi enn frekar við syrgjendur, þar á meðal ungar ekkjur og ekkla með börn á framfæri.

Hún bendir á að foreldrar sem hafa verið að fylgja börnum sínum í gegnum veikindi séu oft búin með öll sín réttindi. Misjafnt sé milli vinnuveitenda hvað fólk eigi inni og því sé mikilvægt að ríkið geti tekið þarna við. „Ef þú átt engin skrifuð réttindi þá eru miklu meiri líkur á að, eins og flestir Íslendingar eru í dag, láti sig bara hafa það og mæta í vinnu. En um leið og þetta er orðið skriflegt þá áttu þessu skýr réttindi þá ertu líklegri til þess að nýta þér þau.“

Karólína segir að hingað til hafi ágætlega verið stutt við foreldra sem missa börn á meðgöngu en ekki foreldra sem missa börn. „Þetta er auðvitað bara hrikalegt áfall sem fólk verður fyrir og mikilvægt að við reynum að styðja við þau.“