Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tyrkir geta tafið NATO-aðild Finna og Svía „í heilt ár“

epa10012368 (L-R) Finland's Prime Minister Sanna Marin, Sweden's Prime Minister Magdalena Andersson and Norway's Prime Minister Jonas Gahr Store in a conversation during the Co-operation Committee of the Nordic Social Democratic parties (SAMAK) summit on 'Our Nordic Region can do better', in Stockholm, Sweden, 14 June 2022.  EPA-EFE/HENRIK MONTGOMERY  SWEDEN OUT
Frá vinstri: Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, Magdalega Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar og Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs á fundi norrænna jafnaðarmanna í Stokkhólmi 14. júní 2022. Mynd: EPA-EFE - TT NEWS AGENCY
Svíar og Finnar vonast til að ná samkomulagi við Tyrki áður en leiðtogaráð NATO hefst í Madríd á Spáni eftir tvær vikur. Tyrkjum virðist hins vegar ekkert liggja á og eru tilbúnir að tefja inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO í heilt ár ef þess gerist þörf.

Þannig byrjar frétt sænska ríkissjónvarpsins, SVT, um stöðu aðildarumsóknar Norðurlandanna tveggja í Atlantshafsbandalagið. Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, segir brýnt að leysa deiluna fyrir leiðtogafundinn. „Annars er hætt við að umsóknarferlið reki í strand,“ sagði Marin á sameiginlegum fréttafundi með Magdalenu Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, í gær.

Mikill stuðningur við aðild Finna og Svía

Mjög mikill stuðningur er við inngöngu landanna meðal aðildarríkja bandalagsins. Tyrkir sáu sér hins vegar leik á borði til að gera sig gildandi og koma höggi á erkifjendur sína, Kúrda. Fullyrða þeir að hryðjuverkamenn úr þeirra röðum njóti verndar stjórnvalda í löndunum tveimur, einkum þó Svíþjóð, og að Svíar veiti hryðjuverkasamtökum Kúrda þar að auki margvíslegan stuðning,

Krefjast þeir þess að löndin tvö, sér í lagi Svíþjóð, láti þegar í stað af öllum stuðningi við þessi samtök, og felli að auki úr gildi vopnasölubann og aðrar viðskiptahindranir sem þau innleiddu gegn Tyrkjum eftir að þeir réðust inn í Sýrland árið 2019.

Segir Tyrki verðskulda meiri virðingu

Vísað er í frétt The Guardian, þar sem Akif Çağatay Kılıç, formaður utanríkismálanefndar tyrkneska þingsins segir að þetta sé afar mikilvægt fyrir þjóðarhagsmuni Tyrkja og að þeir séu „reiðubúnir til að hindra aðild [landanna] í heilt ár ef þess gerist þörf.“

„Tyrkland er með næst stærsta herinn í NATO og við höfum séð Úkraínumönnum fyrir drónunum sem þeir nota til að verja sig. Við verðskuldum meiri virðingu,“ segir Kılıç, sem situr á þingi fyrir Réttlætis- og þróunarflokk Erdogans Tyrklandsforseta.

Í viðtalinu við The Guardian segir hann Tyrki framfylgja skyldum sínum gagnvart NATO og spyr hvað Svíar og Finnar ætli að gera. „Þeir hafa skotið skjólshúsi yfir hryðjuverkasamtök sem drepa fólkið okkar, hundsa landamæri okkar og eru raunveruleg ógn við landið okkar. Það eina sem við förum fram á er að ekki sé gerður mannamunur. Hryðjuverkasamtök eru hryðjuverkasamtök.“

Kılıç neitar því að forsetinn og flokkur hans noti málið fyrst og fremst í áróðursskyni til að kynda undir þjóðernishyggju heima fyrir í aðdraganda kosninga.  Hann vísar því líka á bug, að andstaða Tyrkja við inngöngu Norðurlandanna í skugga Úkraínustríðsins sé liður í því að þrýsta á Bandaríkjamenn í tengslum við hergagnaviðskipti.