Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Tveggja mánaða útgöngubanni aflétt í Shanghai

31.05.2022 - 17:29
epa09987775 People walk past workers dismantling barriers prior to a lockdown lifting in Shanghai, China, 31 May 2022. The Shanghai Government on 30 May announced the lifting of most restrictions starting 01 June 2022. All residents will be able to leave their compounds freely without using any passes, except those living in medium and high-risk areas. Inner-city public transportation and taxis will also resume operation. Residents will be allowed to move freely using their own vehicles, however, they will still need to submit an application to authorities in order to leave the city.  EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI
Verið er að fjarlægja girðingar sem reistar voru vegna útgöngubannsins í Shanghai. Mynd: EPA-EFE
Íbúar Shanghai, stærstu borgar Kína, 25 milljónir talsins, fá frá og með deginum í dag að fara að mestu leyti frjálsir ferða sinna eftir útgöngubann af völdum COVID-19 síðastliðna tvo mánuði. Nokkur hundruð þúsund eru þó enn heima í sóttkví.

Útgöngubanninu í Shanghai var aflétt á miðnætti, þegar klukkan var fjögur síðdegis að íslenskum tíma. Stefna kínverskra stjórnvalda er þó óbreytt. Allt skal gert til að halda kórónuveirunni frá landsmönnum, sem þýðir að þeir sem smitast verða að fara í sóttkví eða leggjast inn á sjúkrahús. Um 650 þúsund borgarbúar verða enn að halda sig heima.

Yin Xin, talsmaður yfirvalda í Shanghai, sagði þegar hún tilkynnti að útgöngubanninu hefði verið aflétt, að loksins væri komið að því sem borgarbúar hefðu þráð lengi. Allir hefðu þurft að færa fórnir og nú væri um að gera að gæta þess að dreifing veirunnar færi ekki í sama farið aftur.

Síðustu mánuðir hafa reynt mjög á flesta íbúa Shanghai. Margir hafa misst tekjur, fólki hefur reynst erfitt að verða sér úti um lífsviðurværi og þá hefur einangrunin reynst mörgum erfið andlega.

Áætlað er að almenningssamgöngur komist í sitt fyrra horf frá morgundeginum. Þá verða verslanir einnig opnaðar. Kvikmyndahús og söfn verða áfram lokuð, svo og líkamsræktarstöðvar. Fólk þarf að geta sannað með sérstökum kóða í símum sínum að það sé laust við smit þegar það fer að heiman. Í bönkum, verslunarmiðstöðvum og víðar þarf það að sýna neikvætt PCR próf, sem ekki má vera eldra en þriggja sólarhringa gamalt. Þeir sem ferðast út fyrir borgarmörkin verða að fara í sóttkví í eina til tvær vikur þegar þeir snúa til baka.