Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mesta hækkun fasteignamats á milli ára

Mynd: Sunna Valgerðardóttir / RÚV
Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um tæp 20% á milli ára. Matið hefur aldrei hækkað meira á einu ári og mesta hækkunin er í Hveragerðisbæ, rúm 32%. Aðalhagfræðingur ASÍ segir að þetta auðveldi ekki gerð kjarasamninga í haust.

Vefur Þjóðskrár Íslands lá niðri um tíma í dag eftir að tilkynnt var um nýtt fasteignamat, enda margir sem vildu skoða hversu mikið mat á eign þeirra hefði hækkað. 

Allar fasteignir á landinu eru nú samtals metnar á 12.627 milljarða króna, fasteignamat íbúða hækkar um 23,6% á landinu öllu milli ára og sérbýli hækkar meira en fjölbýli. Mesta hækkunin er í Fljótsdalshreppi, um 38,9% og minnst í Dalvíkurbyggð - um 6,2%.

Hækkunin er mismikil eftir sveitarfélögum. Ef skoðuð er fasteign á höfuðborgarsvæðinu sem var metin á 50 milljónir í ár sést að þegar nýja fasteignamatið hefur tekið gildi um næstu áramót verður fasteignamatið 62 milljónir í Garðabæ og Mosfellsbæ, 61 milljón í Kópavogi og Hafnarfirði, 59 milljónir í Reykjavík og 57,5 milljón á Seltjarnarnesi. 

Fasteignamat á atvinnuhúsnæði hækkar líka. Sú hækkun nemur 10,2% á landinu öllu og þar er hækkunin meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. En hvað þýðir þetta fyrir heimilin í landinu?

„Fasteignagjöldin þróast með fasteignamati þannig að óbreyttu felur þetta í sér hækkun á fasteignagjöldum. Aðeins mismikið á milli sveitarfélaga og eftir því hvernig fasteignagjöldin eru samsett þar. En miðað við þessa þróun er ekkert óvarlegt að áætla um 20% hækkun á fasteignagjöldum mjög víða,“ segir Róbert Farestveit aðalhagfræðingur ASÍ.

Þetta er mesta hækkun sem orðið hefur á fasteignamati á milli ára síðan byrjað var að endurmeta það í lok maí á hverju ári. Til dæmis nam hækkunin 7,3% í fyrra og 2,1% árið þar áður. Fram að þessu var mesta hækkunin árið 2013, 13,8%.

Róbert segir ekkert óvænt við þessa hækkun á matinu, það endurspegli stöðuna á húsnæðismarkaðnum þar sem verð hafi hækkað hratt. „Sú þróun er núna að rata inn í fasteignamatið af fullum þunga.“

Þessi hækkun bætist við ýmsar aðrar hækkanir að undanförnu; vaxtahækkanir, hækkanir á matvöru og ýmsum vörum. „Þannig að það bætist í þetta púkk. Gæti þetta haft áhrif á kjarasamningagerð í haust? Ég held að öll þessi verðbólga sem við sjáum núna flæki fyrir stöðunni. Það er alveg ljóst,“ segir Róbert.