Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bretar prófa að stytta vinnuvikuna í fjóra daga

29.05.2022 - 13:06
epa01364706 A Londoner  enjoys a last night of drinking alcohol on the tube late 31st May 2008 before a ban comes into effect on 1st June. Hundreds of revellers joined the good-natured party on the Circle Line, supervised by a smaller number of police and London Underground staff.  EPA/DANIEL DEME
 Mynd: EPA
Vinnuvika yfir 3.000 starfsmanna í 60 fyrirtækjum í Bretlandi styttist úr fimm í fjóra í júní. Fyrirtækin taka þátt í tilraunaverkefni næstu sex mánuði.

Sambærilegar tilraunir hafa verið gerðar hér á landi, á Spáni, Bandaríkjunum og Kanada. Ástralir og Nýsjálendingar áætla að hefja sínar tilraunir í ágúst. 

Fræðimenn við Oxford og Cambridge háskóla stýra verkefninu í samstarfi við Boston háskóla í Bandaríkjunum og samtökin 4 Day Week Global, 4 Day Week UK Campaign og hugveituna Autonomy.

Alex Soojung-Kim Pang, verkefnastjóri hjá 4 Day Week Global, óhagnaðardrifnum samtökum sem standa á bak við verkefnið, segir í samtali við AFP að fyrirtæki fái svigrúm til að takast á við áskoranir, nýjar aðferðir og öflun gagna. Það kunni að reynast minni fyrirtækjum auðveldara að aðlagast þar sem þau geti gert stórar breytingar með einföldum hætti. Fyrirtækin sem taka þátt í verkefninu í Bretlandi vonist til þess að með þátttökunni takist þeim frekar að halda í starfsfólk. Aldrei hafa fleiri laus störf verið í landinu í einu eða alls 1,3 milljónir, segir í frétt AFP.  

The Guardian segir að ætlunin sé að kanna áhrif breytinganna á ýmsar atvinnugreinar. Þetta sé fjölmennari hópur en tók þátt í tilrauninni á Íslandi. Hér náði tilraunaverkefnið til rúmlega 2.500 starfsmenn ríkis og borgar árið 2015.  

Bretar vinna að jafnaði 36,5 klukkustundir á viku. AFP hefur eftir Phil McParlane, stofnanda vinnumiðlunarinnar 4dayweek.io í Glasgow, segir styttri vinnuviku vera hag beggja og í raun auðvelda ráðningar til muna. Fyrirtæki hans auglýsir aðeins störf með fjögurra daga vinnuviku og sveigjanleika. Fjöldi starfa sem þar séu auglýst hafi farið úr 30 í 120 á síðustu tveimur árum. Í heimsfaraldrinum hafi margir vegið og metið hvernig þeir vilji verja tíma sínum og hvað sé þeim mikilvægt.