Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Var loksins búin að ná sér“ þegar hún greindist

Mynd: RÚV / RÚV

„Var loksins búin að ná sér“ þegar hún greindist

28.05.2022 - 10:40

Höfundar

Jón Gunnar Geirdal missti Ölmu systur sína úr krabbameini fyrir tveimur árum. Þegar hún greindist hafði hún áður barist við fíknivanda og geðræn veikindi. Hún hafði einnig reynt að taka eigið líf. Jón Gunnar segist vilja minnast systur sinnar eins og hún var; fjörugur og fyndinn uppistandari og grúskari sem fór sínar eigin leiðir.

Jón Gunnar Geirdal er oft sagður vera mesti „plöggari“ landsins. Hann hefur haft atvinnu af því að græja og gera, eins og sagt er, jafnan við að kynna hina ýmsu viðburði í fjölmiðlum. Þar ber hæst kynningarvinna hans fyrir þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Í seinni tíð hefur hann skrifað handrit og sett fram hugmyndir að leiknum sjónvarpsþáttum. Hann var gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í þættinum Okkar á milli á RÚV. 

Þar ræddi Jón Gunnar meðal annars um systur sína, Ölmu Geirdal, sem lést fyrir aldur fram árið 2020. Alma hafði sigrast á krabbameini 2017 en meinið tók sig upp aftur árið 2019 og sú barátta vannst að endingu ekki.

Loksins orðin edrú 

„Þetta er bara það erfiðasta sem maður hefur gert, Guð minn almáttugur,” segir Jón Gunnar Geirdal um fráfall systur sinnar. Alma hafði þegar sigrast á áfengis- og fíknivanda þegar hún greindist og hann segir að það hafi gert fráfall hennar enn þungbærara, á einhvern hátt. 

„Hún var loksins búin að ná sér á strik og þá helltist krabbameinið yfir. Þá bara var loksins komið að einhverjum slag sem hún gat ekki unnið. Og það fannst okkur ótrúlega erfitt einhvern veginn af því hún var komin á svo góðan stað, búin að finna sig svolítið eftir allt þetta brölt og leið betur og þá einhvern veginn kom það högg.” 

Ekkert feimnismál

Jón Gunnar ræðir nokkuð opinskátt um fráfall systur sinnar og erfiðleika hennar fyrr á ævinni. Alma gerði það enda sjálf í lifanda lífi, hélt úti Facebook-síðu um veikindi sín og vakti mikla athygli. Þegar hún síðan dó var frá því greint á öllum helstu fréttamiðlum landsins.  

„Hún talaði mjög opinskátt um þetta og þess vegna getum við verið að ræða þetta og við fjölskyldan.” 

En Jón Gunnar ræðir ekki aðeins um systur sína á opinskáan hátt heldur líka skondinn. Af frásögnum hans að dæma tók Alma sjálfri sér og lífinu ekki of hátíðlega og Jóni Gunnari finnst rétt að minnast hennar þannig. 

Hann rifjar til dæmis upp þegar hann bar hana á höndunum inn á geðdeild eitt sinn, þegar Alma var hjálparþurfi.  

„Henni tókst meira að segja einhvern veginn að kasta sér út þaðan,” segir Jón Gunnar og brosir.  

„Við verðum bara að brosa, vissulega tvö ár síðan hún fer og sorgin er furðulegt fyrirbæri. Ég vil muna bara hvernig hún var, ekki sjá þetta bara í einhverjum dans og regnboga, þetta var ekki þannig. Hún var opinská og þess vegna vil ég vera það líka og minnast hennar þannig.”

Fór sínar eigin leiðir

Jón Gunnar segir að honum finnist eins og Alma hafi „kastað inn handklæðinu” of snemma. Henni voru gefin fjögur ár ólifuð þegar hún greindist, sem síðan urðu ekki nema 10 mánuðir. Í viðtali við Ísland í dag meðan á baráttunni við krabbameinið stóð, sagði Alma að hún fyndi á sér að tíminn sem hún ætti eftir ólifað væri styttri en þau fjögur ár sem henni voru gefin. Hún væri orðin það þróttlítil og kvalin að fjögur ár væru of gott til að vera satt.  

Jón Gunnar vill þó meina að systir hans hafi getað barist meira, hvort sem sú tilfinning sé aðeins hluti af erfiðu sorgarferli eða ekki. Hann segir hana stundum hafa tekið ákvarðanir sem virtust öðrum alveg galnar og gátu þau systkinin oft rifist yfir því - en þó hlegið að því stuttu síðar. 

„Ég meina, hún reykti í gegnum þetta allt saman, til dæmis bara eitt. Það gat gert stóra bróður alveg brjálaðan,” segir Jón Gunnar og brosir.

Sjá má brot úr þættinum í spilaranum hér að ofan en þáttinn í heild sinni má nálgast hér.