Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Stuð og gleði í 50 ára afmælisveislu Fellaskóla

28.05.2022 - 19:00
Fellaskóli í Reykjavík er fimmtíu ára og var því slegið upp veislu í dag þar sem gamlir fullorðnir nemendur hittu sína fyrrverandi lærimeistara. Sérstök áhersla er lögð á tónlistarkennslu í skólanum enda minna um að börn í hverfinu séu skráð í tónlistarskóla en í sumum öðrum hverfum.

Mikið var um dýrðir í tilefni dagsins og veðrið lék við veislugesti sem létu sig ekki vanta í afmælisveisluna. Þarna mættust gamlir og núverandi starfsmenn og nemendur við skólann.

Meðal þeirra sem mættu var Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra og fyrrverandi menntamálaráðherra og ekki síður fyrrverandi formaður nemendaráðs Fellaskóla. Hún var allan sinn grunnskólatíma í Fellaskóla og segist alltaf vera í hlutverki nemendaráðsformannsins. Lilja segir skólann sér mikils virði og þar hafi hún mótast. Stundum hefur verið sagt að óstýrilátir krakkar hafi búið í hverfinu og sótt skólann.

„Ég myndi segja að ákveðið viðhorf hafi mótað mig og það sé eitthvað til í því að, alla vega, ég læt ekkert eiga ofboðslega mikið inni hjá mér.“

Hún segist fagna því að hitta gamla kennara og ekki síst gamla skólastjórann sinn, sem hún segir hafa verið hvetjandi en líka veitt aðhald og viðurkennir hafa hafa verið kölluð inn á teppið hjá honum.

„Jább.“
Er það gleymt og grafið?
„Já, já við fundum út úr öllu.“

Fyrrverandi og núverandi nemendur sáu um tónlistina með dyggri aðstoð Hrafnkels Arnar Guðjónssonar og Höskuldar Eiríkssonar, sem eru vel þekktir úr rokksenunni, en þeir sjá um alhliða tónlistarkennslu og sköpun í sérstöku átaki vikulega í skólanum. Þeir segja áhugann gríðarlegan.

„Já, það er rosa mikill áhugi og þetta eru bara svo geggjaðir krakkar.
Það er líka mikill áhugi hjá skólanum að leggja svolítinn metnað í þetta og vera tónlistarmiðaður skóli.“
Er einhver ástæða fyrir því að þetta verkefni er hér?
„Það er kannski meiri þörf hér en á mörgum öðrum stöðum, það er minna um það að krakkar hér séu skráðir í tónlistarskóla. Þess vegna erum við að koma til móts við það.“

Þessi tónlistaráhersla er kannski við hæfi því að félagsmiðstöðin Fellahellir við skólann hefur verið þekktur tónleikastaður í gegnum tíðina. Þá viðurkenna þeir að krökkunum þyki skemmtilegra að hafa þekkta rokktónlistarmenn sem kennara heldur en einhvern sem er fjær þeim í menningu.

„Þeir eru ágætir líka, það þarf bara að vera eitthvað jafnvægi þarna á milli.
Ég held að það skipti alveg máli að það séu sýnilegir tónlistarmenn sem eru að vinna þetta starf.“
Og tilbúnir í tónlistina sem krakkarnir hafa áhuga á?
„Já, já. Einn mikilvægasti punkturinn í þessu er að koma til móts við þau með þeirra tónlist og við þurfum bara að læra hvað TikTok þýðir og svo framvegis.“  
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV