Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óperudagar ný borgarhátíð í Reykjavík

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Þór Davíðsson - Óperudagar

Óperudagar ný borgarhátíð í Reykjavík

28.05.2022 - 08:24

Höfundar

Sex hátíðir hafa hlotið útnefningu sem borgarhátíðir Reykjavíkur næstu þrjú árin. Þar á meðal eru Óperudagar sem nú fá slíkan samstarfssamning við borgina í fyrsta skipti.

Borgarhátíðirnar sex eru Hinsegin dagar – Reykjavík Pride, Hönnunarmars, Iceland Airwaves, RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, Reykjavík Dance Festival og Óperudagar. Síðastnefnda hátíðin hefur verið haldin frá því árið 2016, með það að markmiði að efla óperu- og tónlistarleikhússenuna á Íslandi, gera hana sýnilegri og aðgengilegri.  

Guja Sandholt, listrænn stjórnandi Óperudaga, segir það bæði faglega og fjárhagslega mikilvægt fyrir hátíðina að fá útnefningu sem borgarhátíð. „Það hefur rosalega mikla þýðingu fyrir okkur að fá að vera í hópi þessara flottu hátíða sem nú þegar voru borgarhátíðir. Það gefur okkur ákveðin stimpil að vera komin á þann stað að fá að vera í þessum hópi,“ segir Guja.

Reykjavíkurborg styrkir hátíðirnar sex um samtals 50 milljónir króna á ári næstu þrjú árin. Hinsegin dagar, Hönnunarmars og Airwaves hljóta 10 milljónir á ári hver hátíð, RIFF og Reykjavík Dance festival 7,5 milljónir hvor og Óperudagar hljóta 5 milljónir króna á ári.