Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Með vasaklútana klára í Hörpu

Mynd: Tony Hauser / Rufus Wainwright

Með vasaklútana klára í Hörpu

28.05.2022 - 13:13

Höfundar

Rufus Wainwright heldur tónleika í Hörpu á morgun, sunnudag, og Jelena Ciric las upp pistil af því tilefni í þætti Víðsjár í vikunni. Þar rekur hún feril kandadíska tónskáldsins og veltir vöngum yfir því hverju megi búast við á tónleikunum. Þar segist hún ætla að vera, með vasaklútinn til reiðu.

Jelena Ciric skrifar:

Svona hefst fyrsta lagið á fyrstu plötu Rufus Wainwrights. Platan, sem heitir einfaldlega Rufus Wainwright, kom út árið 1998. Rufus hafði varið nánast tveimur árum í upptökur ásamt pródusernum Jon Brion. Þeir höfðu tekið upp fimmtíu og sex lög á sextíu og tvær segulbandsspólur. Hljóðritunin öll kostaði í kringum sjöhundruð þúsund bandaríska dollara.

Þrettán af þessum fimmtíu og sex lögum komust á plötuna, sem var fagnað af gagnrýnendum en náði þó ekki vinsældum meðal almennings. Það sama má raunar segja um langflest verk Wainwrights: 10 plötur, eina óperu, ábreiður af sígildum lögum og fleira. Þó tónlist hans hafi aldrei selst í bílförmum, hefur hann oft og títt verið lofaður af tónlistargagnrýnendum og tónlistarmönnum, eins og sjálfum Elton John, sem hefur kallað Wainwright “besta lagahöfundinn á jörðinni”.

Rufus Wainwright er á Íslandi og spilar í Hörpu sunnudaginn 29. maí. Í tilefni af því langar mig að segja ykkur, kæru hlustendur, aðeins frá þessum magnaða tónlistarmanni, sem á það sameiginlegt með mér að vera með kanadískt vegabréf, þó hann, eins og ég, hafi verið annars staðar stóran hluta af lífi sínu.

Rufus Wainwright fæddist 22. júlí 1973 í þorpinu Rhinebeck í New York inn í fjölskyldu af miklum tónlistarættum. Faðir hans Loudon Wainwright þriðji og móðir hans Kate McGarrigle voru bæði folk-söngvarar og -lagahöfundar. Þau skildu þegar Rufus var aðeins þriggja ára og þá flutti hann með mömmu sinni til Montreal í Kanada þar sem hann ólst upp.

Tónlistarferill Wainwrights hófst snemma: aðeins sex ára byrjaði hann að spila á píanó en strax 13 ára fór hann í fyrsta tónleikaferðalagið með móður sinni, frænku og systur, í fjölskylduhljómsveit sem hét einfaldlega The McGarrigle Sisters and Family. Framkoma Wainwrights og frumsamin lög hans vöktu snemma athygli og þegar hann var aðeins 14 ára hlaut hann tilnefningu til Genie-verðlaunanna í flokknum besta frumsamda lagið. Wainwright hefur lýst sambandi sínu við foreldra sína sem erfiðu, sérstaklega eftir að hann tilkynnti þeim sem unglingur að hann væri samkynhneigður. Þau tóku þeirri frétt illa. Frekar en að ræða málin sendu þau hann aftur til New York ríkis, í heimavistarskólann Millbrook.

Rufus Wainwright var aðeins 25 ára þegar fyrsta platan hans kom út en á þeim tíma hafði hann reynt meira en margir á heilli öld. Textarnir á plötunni fjalla um ást og ástarsorg frá hinsegin sjónarhorni, en einnig um áfall: honum var nauðgað aðeins fjórtán ára gömlum. Þetta var seint á níunda áratugnum og Wainwright var lengi hræddur um að hann hefði smitast af alnæmi, sem á þeim tíma var dauðadómur.

Það þarft einstaka hæfileika til að tækla efni sem spannar allt frá ástarsorg yfir í dauða í tónlistinni án þess að hún verði væmin en Wainwright tekst það, kannski út af röddinni. Skær og sérkennileg söngrödd hans myndi ekki kallast falleg, alla vega ekki á hefðbundinn hátt, en hún er beinskeytt og fölskvalaus og Wainwright er ekki hræddur við að nota hana. Sem söngvari er hann aldrei á hraðferð í gegnum textann, heldur teygir hann hvert orð á löngum, áhrifamiklum nótum, togar úr þeim tilfinningu, merkingu – og meðaumkun. Hann þjáist, hann vorkennir sjálfum sér, en hann er svo einlægur í því að allt sjálfsdekrið verður sjarmerandi.

Sem unglingur uppgötvaði Wainwright óperur og varð hugfanginn af þeim. Innblásturinn sem þær veita honum heyrist glöggt í fyrstu útgefnu lögunum hans og fylgir honum í gegnum allan hans feril. Tónlist hans er stundum skilgreind sem „barokk popp” - sökum laglína og hljómaganga í henni sem rekja má til klassískrar hefðar, en einnig fyrir stórar útsetningar þar sem strengir og sinfóníuhljómsveitir leika stórt hlutverk.

En lög Wainrights eru heldur frjálsari í forminu en barokk tónlist. Þau eiga til að byrja á viðlaginu, eða enda á brúnni - stundum er erfitt að segja hvort það hafi verið erindi í þeim yfirhöfuð. Rímið í textanum birtist þar sem hlustandinn á sjaldan von á því eða birtist ekki þar sem hann býst við að heyra það.

Hvert lag er ferðalag fullt af óvæntum snúningum og uppákomum - eins og líf Wainwrights hefur verið. En á meðan hann er að vinna í annarri plötu sinni, Poses, verður lífsferðalagið töluvert dekkra og erfiðara.

Poses fær lof gagnrýnenda, eins og fyrsta platan, en selst ekki sérstaklega vel. Rufus verður háður eiturlyfjum - kristölluðu metamfetamíni - og fíknin nær hæstu hæðum árið 2002, á tveggja vikna tímabili sem hann hefur kallað súrrealískasta tímabil lífs síns. Fíknin veldur því að hann missir sjónina tímabundið. Um þetta tímabil hefur hann sagt: „Annað hvort ætlaði ég í meðferð eða að búa með föður mínum. Ég vissi að ég þurfti drullusokk til að öskra á mig og mér fannst hann passa í það hlutverk.”

Rufus hefur gefið út 10 plötur með frumsömdu efni og það má vissulega deila um hver þeirra sé best, en mín uppáhalds er sú þriðja, sem kemur út eftir að hann sigrast á djöflum fíknarinnar: platan Want One.

Á Want One er Rufus bara ennþá meira Rufus, í öllum skilningi. Útsetningarnar eru enn dramatískari, röddin enn viðkvæmari, en á sama tíma birtist eitthvað nýtt í lögunum: bjartsýni, jafnvel lífsgleði. En það er ekki bjartsýni saklausa barnsins, heldur dýrkeypt bjartsýni þess sem hefur lent í hörmungum og lifað af.

Þegar ég rifjaði upp plötuna Want One fyrir þennan pistil uppgötvaði ég eitt sem ég hafði ekki tekið eftir áður. Nánast allir lagatextarnir innihalda spurningar - um ást, líf og tilveruna. Þessum spurningum er ekki hægt að svara en Rufus krefst heldur ekki svara, eins og kemur fram í tólfta lagi plötunnar, Want.

Frá því að Want One kom út hefur Rufus gefið út fjölda platna – flestar eru teknar upp með stórri hljómsveit, ein aðeins á rödd og píanó, þar að auki hefur hann svo samið óperu og útsett sonnettur Shakespeares. Mér gefst ekki tími til að ræða öll þessi verk en það má þó nefna ábreiður hans, sem hann er vel þekktur fyrir og sýna að hann er ekki aðeins góður flytjandi eigin tónlistar, heldur næmur og gáfaður tónlistarmaður í fjölbreyttum aðstæðum.

Ég veit ekkert um efnisskrá tónleikanna í Hörpu á sunnudaginn en ég er þess fullviss að þeir verði stórkostlegir. Ég verð á staðnum, með vasaklúta í töskunni.