Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Manni blöskrar, þetta er svo ómanneskjulegt“

28.05.2022 - 19:38
Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV
Nokkrir klökknuðu á mótmælum á Austurvelli í dag þegar flóttafólk sem á að vísa úr landi á næstunni sagði sögu sína. Ein þeirra, sem vísa á til Grikklands, sagði að hún yrði ekki örugg þar og líklega á götunni. Á annað hundrað manns söfnuðust saman á Austurvelli í dag til stuðnings flóttafólkinu sem á að senda úr landi á næstunni. Ómanneskjulegt, sögðu mótmælendur.

„Enginn manneskja er ólögleg,“ voru skilaboð fundarins. 

„Ég er komin því að réttlætiskennd minni er misboðið,“ segir Guðmunda Erla Þórhallsdóttir.

„Ég vil hafa áhrif á ríkisstjórnina og ekki síst þá sem kalla sig vinstri menn,“ segir Hafsteinn Einarsson.

„Ég er kominn til að sýna þeim sem á að vísa úr landi samstöðu og mótmæla, manni blöskrar þetta er svo ómanneskjulegt,“ segir Gísli Hrafn Atlason.

„Ef við opnum landið örlítið þá verði hér mjólkurbúðabiðröð, það er ekki svona rosalega gott að búa á Íslandi,“ segir Hafsteinn.

„Við erum að taka á móti fólki frá Úkraínu, gott mál. En afhverju látum við hina þá fara ég vil gjarnan fá skýringar á því. Eru þetta ekki nógu góðar hendur til að vinna fyrir okkur,“ segir Guðmunda Erla.

Nokkrir beygðu af þegar flóttafólkið sagði sögu sína á mótmælafundinum. „Vonin snýst um að fá skilríki og fá að vera hér, aðlagast samfélaginu og verða gagnlegur þjóðfélagsþegn á Íslandi,“ sagði einn flóttamannanna.

Sefur á götunni á Grikklandi

„Ég kann vel við mig á Íslandi og langar að vera hér áfram. Ég vil þakka ykkur fyrir að koma og sýna okkur stuðning,“ sagði Fatwa. Hún er frá Sómalíu og kom hingað til lands í júní í fyrra með viðkomu í Grikklandi þangað sem á að senda hana á ný. Hún veit ekki hvenær en hefur verið sagt að það sé fljótlega.

„Þetta er mjög erfitt líf, við sofum á götunni. Það er enginn matur og enginn gististaður og það er illa komið fram við mann. Ég hef ekki að neinu að hverfa,“ segir hún.

Tæplega tvöhundruð manns eru á lista stoðdeildar ríkislögreglustjóra yfir fólk sem á að vísa úr landi. Þar af eiga 44 að fara til Grikklands. Tvær fjölskyldur eru í þeim hópi og verður þeim ekki fylgt úr landi, því á næstu dögum hafa fjölskyldurnar dvalið það lengi á Íslandi að þær eiga rétt á efnislegri meðferð.

Fatwa er ein, fjölskylda hennar varð eftir í Sómalíu og hún kvíðir því að fara til Grikklands. „Ég vil biðja um hjálp.“