
Krefjast rannsóknar á ofbeldi gegn andófskonum
Konurnar tilheyra hópi fólks sem styður sjálfstæði Vestur-Sahara. Í yfirlýsingu Amnesty segir að konunar hafi tekið þátt í friðsamlegum mótmælum fyrir sjálfsákvörðunarrétti Sahrawi, þegar látið var til skarar skríða gegn hverri þeirra fyrir sig.
Vestur-Sahara var nýlenda Spánar til ársins 1975, en þá lögðu Marokkómenn það undir sig. Frelsishreyfingin Polisario lýsti hins vegar yfir sjálfstæðu ríki, sem hún kallaði Sahrawi-lýðveldið.
Lögreglumenn og óeinkennsklæddir fulltrúar hafi látið kylfuhögg dynja á konunum, þeir hafi kýlt þær og sparkað í þær. Ein þeirra beinbrotnaði við atlöguna.
Amna Guellai, svæðisstjóri Amnesty, segir að enn hafi marókönsk yfirvöld ekki lyft litla fingri til að rannska málið, fimm vikum eftir atburðina.
Konurnar sem ráðist var að hafa lýst fullum stuðningi við andófskonuna Sultana Khaya sem hefur setið í stofufangelsi frá því í nóvember 2020. Amnesty staðhæfir að hún hafi mátt þola mikið ofbeldi af hálfu öryggissveita, meðal annars hafi henni verið nauðgað.
Guellai segir Amnesty krefjast þess að stjórnvöld hefji þegar óháða rannsókn á öllum ásökunum um illa meðferð og pyntingar. Yfirvöld í Marokkó hafa ekki enn brugðist við því ákalli né tjáð sig um framangreind mál.