Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Harry og Meghan fagna valdaafmæli með Elísabetu

epa09979531 Pictures of Britain's Queen Elizabeth II are shown on Piccadilly Circus lights as a seven-day countdown to the Platinum Jubilee begins in London, Britain, 27 May 2022. London is preparing for the Queen's Platinum jubilee between 02 and 05 June.  EPA-EFE/TOLGA AKMEN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hertogahjónin af Sussex verða viðstödd kirkjuathöfn snemma í næsta mánuði, sem er hluti fjögurra daga hátíðahalda í tilefni sjötíu ára valdatíðar Elísabetar II Bretadrottningar.

Eftir að Harry prins og Meghan eiginkona hans létu af konunglegum skyldum sínum og fluttu vestur um haf til Bandaríkjanna fyrir um tveimur árum, hafa þau aðeins einu sinni í sameiningu heimsótt Bretland.

Það var í apríl þegar þau einslega heimsóttu Elísabetu. Omid Scobie, sem skrifaði sögu hjónanna, segir þau alltaf hafa ætlað sér að taka þátt í athöfninni sem fram fer í dómkirkju heilags Páls í Lundúnum. Þar voru foreldrar Harrys, Karl Bretaprins og Díana gefin saman árið 1981.

Þar verður drottningu þakkað fyrir störf sín á langri valdatíð en athöfnin er einn af hápunktum fjögurra daga hátíðahalda í júníbyrjun. Scobie segir almenning verða vitni að sérstöku augnabliki þegar Lilibet og Archie, börn hertogahjónanna, hitta ömmu sína í fyrsta skipti.

Hann segir orðróm uppi um að Lilibet verði skírð á meðan heimsókn hertogahjónanna stendur, en það verði þó ekki meðan hátíðahöldin vara.

Ekki er búist við að Harry og Meghan verði á svölum Buckinghamhallar ásamt öðrum konungbornum fimmtudaginn 2. júní meðan skrúðganga varðliða gengur hjá og sveitir konunglega flughersins fljúga yfir drottningu til heiðurs.

Scobie bað fólk þó um að búa sig undir að hertogahjónin gætu óvænt birst á svölunum, ásamt drottningu þann 5. júní.

Enginn hefur setið lengur að völdum á Bretlandi en Elísabet en heilsu hennar hefur hrakað nokkuð. Uggur hefur verið uppi um að drottningin geti ekki tekið fullan þátt í hátíðahöldunum en breskir miðlar greindu frá því í gær að hún dvelji í Balmoral, setri sínu á Skotlandi, og safni kröftum fyrir hátíðina.