Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Tillaga felld um auknar refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu

epa04865564 General view of the United Nations Security Council (UNSC) during a vote on the situation in the Ukraine and Malaysia Airlines Flight 17 at the UN headquarters in New York, USA, 29 July 2015. Russia vetoed a UN Security Council resolution
Frá fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Mynd: EPA
Fulltrúar Kína og Rússlands nýttu sér neitunarvald sitt í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að fella ályktun um hertar refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu vegna tilrauna þeirra með langdrægar eldflaugar.

Bandaríkjamenn lögðu fram tillöguna en sendifulltrúar ýmissa ríkja telja að stjórnvöld Norður-Kóreu kunni að hagnýta sér augljósan klofning innan öryggisráðsins.

Nokkrar efasemdir voru um hvort hyggilegt væri af Bandaríkjamönnum að leggja tillöguna fram í ljósi nær öruggrar höfnunar Kínverja og Rússa. Öll hin þrettán ríki öryggisráðsins samþykktu tillöguna.

Fulltrúar Kína og Rússlands kváðust hafa viljað sjá óbindandi yfirlýsingu fremur en herðingu refsiaðgerða. Zhang Jun, sendiherra Kína hjá Sameinuðu þjóðunum, varaði við að auknar þvinganir hefðu alvarlegar afleiðingar fyrir almenna borgara í Norður-Kóreu.

Hann ýjaði jafnframt að því að Bandaríkjastjórn hefði viljað sjá tillöguna fellda til að halda áfram að auka þrýsting á Kína.

Vassily Nebenzia, sendiherra Rússlands sagði Bandaríkjamenn blinda á aðrar leiðir út úr vanda og ágreiningi en að grípa til viðskiptaþvingana. Norður-Kóreustjórn hefur hunsað allar samningaumleitanir ríkisstjórnar Joes Biden.