Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Slasaðist við eggjatöku í Skoruvíkurbjargi á Langanesi

27.05.2022 - 14:59
DCIM\101MEDIA\DJI_0686.JPG
 Mynd: Aðsend
Maður, sem var að síga eftir eggjum í Skoruvíkurbjargi á Langanesi fyrr í vikunni, slasaðist þegar grjót hrundi úr bjarginu. Félagar mannsins höfðu bjargað honum upp þegar sjúkraflutningamenn komu á staðinn.

Þrír félagar voru saman við eggjatöku á Svínalækjartanga á Langanesi og seig einn þeirra í Skoruvíkurbjarg eftir eggjum.

Að sögn lögreglunnar á Þórshöfn losnaði um tveggja tonna steinn úr bjarginu ofan við manninn. Hann náði að sveifla sér undan steininum, en skall við það með öxlina í bjargið og slasaðist.

Félagar mannsins hringdu eftir sjúkrabíl og höfðu aðstoðað hann við að komast upp á bjargbrúnina þegar sjúkraflutningamenn, ásamt félögum úr Björgunarsveitinni Hafliða á Þórshöfn, komu á staðinn.

Maðurinn var fluttur með sjúkrabílnum inn á Þórshöfn og þaðan með sjúkraflugi á Sjúkrahúsið á Akureyri þar sem hann fékk viðeigandi meðferð. Lögreglan hafði ekki frekari upplýsingar um hve mikið maðurinn slasaðist, en hann hlaut nokkra áverka á öxl.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV