Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skuldabréf Ljósleiðarans í Kauphöllina

27.05.2022 - 09:33
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd/OR - RÚV
Skuldabréf Ljósleiðarans (áður Gagnaveita Reykjavíkur) verða tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland í dag.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. Verðbréfin sem tekin verða til viðskipta eru græn skuldabréf í skuldabréfaflokknum LL 010641 GB sem hlotið hafa viðurkenningu óháðs aðila sem „dökkgræn“.

Meðal verkefna sem Ljósleiðarinn hyggst fjármagna með útgáfu skuldabréfanna er yfirstandandi lagning ljósleiðara til heimila, fyrirtækja og stofnana á Selfossi, Eyrarbakka, Stokkseyri, í Reykjanesbæ og Vogum, auk þess sem undirbúningur er hafinn í Grindavík. Þá sé vaxandi þungi í tengingu nýbygginga í sveitarfélögum sem Ljósleiðarinn hefur þegar tengt.

Að sama skapi sé unnið að þeirri framtíðarsýn fyrirtækisins að aukin samkeppni á fjarskiptamarkaði náist með nýjum landshring fjarskipta. Ljósleiðarinn leiti samstarfs séu önnur innviðafyrirtæki að leggja nýja strengi eða lagnir en hafi einnig frumkvæði að lagnaleiðum og bjóði þá öðrum aðild að lagningunni.

Í fréttatilkynningu segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, að opinber skráning bréfanna veiti félaginu aðhald í þeim mikilvægu verkefnum sem það standi í. Þar sé bæði um að ræða almennan rekstur sem og nauðsynlega uppbyggingu fyrir íslenskt upplýsingatæknisamfélag sem Ljósleiðarinn hafi forystu um.