Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Nýr meirihluti B- og D-lista í Húnaþingi vestra

Mynd með færslu
Magnús Magnússon og Þorleifur Karl Eggertsson við undirritun málefnasamningsins Mynd: Aðsend
Oddvitar B-lista Framsóknar og annarra framfarasinna og D-lista Sjálfstæðismanna og óháðra í Húnaþingi vestra hafa undirritað formlegan málefnasamning um samstarf í meirihluta sveitarstjórnar.

Í tilkynningu frá framboðunum segir að samningurinn tiltaki helstu framkvæmdir sem listarnir eru sammála um að setja á oddinn á kjörtímabilinu og þau málefni sem unnið verði að á ýmsum sviðum sveitarfélagsins.

Lögð áhersla á að ríkið standi við skuldbindingar

„Einnig er lögð rík áhersla á þau mál er varða samskipti sveitarfélags, ríkis og innviðafyrirtækja. Þar er undirstrikað mikilvægi þess að staðið verði við þær skuldbindingar af hálfu hins opinbera, sem þegar hafa verið gefnar, og bætt verði úr í þeim málum og málaflokkum sem út af hafa staðið.“ 

Auglýst eftir nýjum sveitarstjóra

Þorleifur Karl Eggertsson, oddviti B-lista, verður oddviti sveitarstjórnar en Magnús Magnússon, oddviti D-lista, verður formaður byggðarráðs.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, gefur ekki kost á sér áfram. Hún var ráðin í starf sveitarstjóra 2019. Þorleifur Karl segir að starf sveitarstjóra verði auglýst fljótlega.