Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fiskur, ál og ferðamenn aldrei verðmætari

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Mikil aukning varð á útflutningsverðmæti Íslands á fyrsta ársfjórðungi í samanburði við sama fjórðung í fyrra. Munaði þar mest um aukningu í útflutningsverðmæti allra stoðanna þriggja, sem sagt sjávarútvegi, stóðriðju og ferðaþjónustu.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Skýrist aukningin af mikilli aukningu ferðamanna, miklum loðnuveiðum og mikilli hækkun álverðs frá því á síðasta ári. Útflutningsverðmæti stoðanna þriggja á fyrsta ársfjórðungi nam rúmlega 242 milljörðum króna og hefur aldrei mælst hærra.

Alls námu útflutningsverðmæti á fyrsta ársfjórðungi tæplega 356 milljörðum króna, samanborið við tæplega 227 milljarða króna á sama ársfjórðungi í fyrra. Aukningin nemur því 129 milljörðum króna, eða 57%.

Útflutningsverðmæti allra stoðanna þriggja jókst verulega milli ára. Mesta aukningin varð í útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar sem jókst um rúmlega 44 milljarða króna, eða 560%. Næstmesta aukningin varð svo í útflutningsverðmæti stóriðju þar sem aukningin var rúmlega 42 milljarðar króna. Útflutningsverðmæti sjávarafurða jókst loks um rúmlega 20 milljarða króna. Samanlögð aukning í útflutningsverðmæti stoðanna þriggja nam því 107 milljörðum króna, af fyrrnefndri 129 milljarða króna aukningu útflutningsverðmæta.