Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vilja frekari refsiaðgerðir gegn Norður Kóreu

epa07786747 Acting US Ambassador to the United Nations Jonathan Cohen speaks during the UN Security Council meeting in connection with the US missile development in violation of the Treaty on the Elimination of Medium and Small Range Missiles in New York, USA, 22 August 2019.  EPA-EFE/BRYAN R. SMITH
Frá fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Mynd: EPA-EFE - EPA
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundar í dag og greiðir að líkindum atkvæði um ályktun um hertar refsiaðgerðir gegn Norður Kóreu vegna nýlegra tilrauna þeirra með langdrægar eldflaugar. Bandaríkin gegna formennsku í ráðinu um þessar mundir. Framlögð ályktun er frá þeim komin og fulltrúi þeirra setti atkvæðagreiðsluna um hana á dagskrá ráðsins seinni partinn í dag, samkvæmt ónefndum heimildarmönnum innan ráðsins.

 

Áður hafði ónefndur bandarískur diplómati upplýst AFP um að ályktunin miði einkum að því að takmarka enn frekar heimildir Norður Kóreu til að flytja inn olíu. Ekki er talið ólíklegt að Rússar eða Kínverjar eða báðir muni beita neitunarvaldi gegn ályktuninni.

Nýleg tiraun brot gegn skilyrðum fyrri ályktunar

Bandaríski heimildarmaðurinn bendir á að ályktun ráðsins númer 2397 frá 2017, sem samþykkt var samhljóða í ráðinu, kveður á um frekari refsiaðgerðir geri Norður Kóreumenn fleiri tilraunir með langdrægar eldflaugar. „Skýrt var kveðið á um þetta í ályktuninni. Og þetta er nákvæmlega það sem gerðist og þess vegna finnst okkur ástæða til að grípa til aðgerða núna.“

Hafa enga trú á gagnsemi ályktunar frá Bandaríkjamönnum

Í frétt AFP er haft eftir talsmanni kínversku sendinefndarinnar að þar hafi fólk enga trú á því að „ályktun samin af Bandaríkjamönnum geti leyst nokkurn vanda.“ Kína hafi lagt fram eigin drög að ályktun, sagði talsmaðurinn, en Bandaríkjamenn haft hana að engu.

Norður-Kóreumenn hafa gert um eða yfir 20 eldflaugatilraunir það sem af er þessu ári, fleiri en nokkru sinni fyrr á svo skömmum tíma. Ein þeirra fólst í tilraunaskoti á langdrægri eldflaug, sem borið getur kjarnaodd heimsálfa á milli.