Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Aukin fjárframlög nauðsynleg vegna hallareksturs á SAk

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Sjúkrahúsið á Akureyri var rekið með tæplega 150 milljóna króna halla í fyrra. Forstjóri sjúkrahússins segir nauðsynlegt að fjárframlög verði aukin til að tryggja aðgengi að öruggri heilbrigðisþjónustu í samfélaginu.

Ársfundur Sjúkrahússins á Akureyri var haldinn í gær. Þar var ársreikningur lagður fram auk þess sem Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra og Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins fluttu ávörp.

Starfsemi sjúkrahússins jókst mikið á liðnu ári en komum á dagdeildir fjölgaði um tæp 24%, dvöl á legudeild um 22% og þá fjölgaði fæðingum á sjúkrahúsinu um 26%. Stofnunin var rekin 146,9 milljóna króna halla og segir Hildigunnar að nauðsynlegt sé að auka fjárframlög. 

„Það er mikil þörf í samfélaginu fyrir þjónustu og það hefur sýnt sig sannarlega í starfseminni hjá okkur, og á sama tíma lakari rekstrarstaða sem að endurspeglar í raun og veru að við erum að gera meira heldur en við fáum fjármagn til. En við lítum á að það sé að endurspegla þá þörf sem við þurfum að veita í þessu samfélagi.“

Ertu vongóð um að á þessu rekstarári sem þú ert komin inn á að þetta haldist betur í hendur?

„Eins og ég sagði er bjartsýni skylda og ég er mjög vongóð um að við náum að vinna með ráðuneytinu í að leysa þessi mál því að sjúkrahúsið er mjög mikilvæg stofnun í þessu samfélagi,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins.