Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skortur á rafvirkjum tefur uppsetningu á hleðslustöðvum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skortur á rafvirkjum á norðausturhorni landsins hefur seinkað uppsetningu á hleðslustöðvum fyrir rafbíla. Verkefnastjóri hjá samtökum sveitarfélaga í fjórðungnum segir afar brýnt að þétta net hleðslustöðva og svo hægt sé að ferðast meira á rafbílum.

Gisið net hleðslustöðva á Norðausturlandi

Þegar dreifing hleðslustöðva um landið er skoðuð á kortasjá Orkustofnunar er greinilegt að í nokkrum landshlutum er net hleðslustöðva býsna gisið, meðal annars á norðausturhorninu. „Það er miður að sjá svona skallabletti ennþá árið 2022 þar sem við erum að reyna að berjast fyrir orkuskiptum,“ segir Rebekka K. Garðarsdóttir, verkefnastjóri hjá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.

Styrkur Orkusjóðs lækkaður úr 50% í 33%

Hleðslustöðvar eru forsenda þess að fólk geti ferðast um landið á rafbílum, en það er dýrt að setja upp hleðslustöð. Orkusjóður veitir til þess styrki og var styrkupphæðin lækkuð í ár og getur að hámarki verið 33 prósent af kostnaði, en var 50 prósent í fyrra. „Þannig að við höfum verið að leita leiða til þess að hjálpa þeim við að koma þessu á laggirnar. Svona styrkir eru hluti af því,“ segir Rebekka.

Erfitt að fá rafvirkja til að setja stöðvarnar upp

En eitt er að kaupa hleðslustöð og annað að setja hana upp. „Og þar hefur verið svolítið erfitt að fá iðnaðarmenn. En rafvirkjar eru bara ekki á hverju strái hér á norðaustursvæðinu,“ segir hún.

„Við tökum fagnandi á móti þeim“ 

Nú hafa verið pantaðar hleðslustöðvar til að setja upp á Kópaskeri og Raufarhöfn og stöðvar á Bakkafirði og Þórshöfn bíða uppsetningar. Rebekka segir enga rafvirkja á þessum stöðum og því þurfi að leita til nágrannasveitarfélaga og hún er bjartsýn á að það takist. „Svo bara óskum við eftir því að einhverjir rafvirkjar á landinu vilji flytja til landshlutans, þá er hér skortur á rafvirkjum og við tökum fagnandi á móti þeim.“