
Í yfirlýsingu frá Agnesi segir að skrif Davíðs Þórs hafi verið harkaleg og ósmekkleg en hann sagði sérstakan stað í helvíti fyrir fólk sem seldi sá sína fyrir völd og vegtyllur. Agnes segist hafa gagnrýnt áform yfirvalda um fyrirhugaðar fjöldabrottvísanir hælisleitenda sem fest hafi rætur hér á landi, en prestar verði að haga málflutningi sínum málefnalega og meiða ekki með orðum.
Davíð Þór kallaði í skrifum sínum ríkisstjórnina, fasistastjórn VG, sem hefur ákveðið að míga á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. „Þetta er í beinni mótstöðu við það hvernig VG liðar töluðu um þessi mál þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. Þinglið og ráðherrar VG eru ekki lengur bara meðsek um glæpi þessarar ríkisstjórnar gegn mannúð og góðu siðferði, þau eru einfaldlega sek eins og syndin. Það er sérstakur staður í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína fyrir völd og vegtyllur,“ segir á facebook síðu Davíðs Þórs.
Í yfirlýsingu Agnesar segir að málinu teljist nú lokið af hálfu biskups. „Eftir stendur sem meira máli skiptir ákall biskups Íslands um mannúð og mildi þegar kemur að málefnum hælisleitenda,“ segir í yfirlýsingunni.