Mynd: epa

Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.
Ástandið í Luhansk versnar „með hverri klukkustund“
25.05.2022 - 02:57
Deilur og stríð · Erlent · Innrás í Úkraínu · Luhansk · Rússland · Úkraína · Volodymyr Zelensky · Evrópa
Ástandið í Luhanskhéraði í austanverðri Úkraínu fer versnandi með hverri klukkustundinni sem líður, segir héraðsstjórinn Serhiy Haidai í myndskeiði sem hann birti á samfélagsmiðlinum Telegram. Rússar hafa haldið uppi linnulitlum árásum á þann hluta héraðsins sem enn lýtur úkraínskum yfirráðum síðustu daga. Haidai segir aðstæður afar erfiðar og þær fari því miður bara versnandi.
„Ástandið versnar með hverjum degi og jafnvel hverri klukkustund,“ sagði héraðsstjórinn. „Stórskotahríðin þyngist stöðugt. Rússneski herinn hefur ákveðið að jafna borgina Severodonetsk við jörðu.“
Sjá einnig: Fjöldamorð yfirvofandi á donbas svæðinu
Volodymyr Zelensky Úkraíuforseti tók í sama streng í daglegu sjónvarpsávarpi sínu í gærkvöld. Þar sakaði hann Rússa um að hafa skipulagt fjöldamorð á Donbas-svæðinu í austurhluta Úkraínu, sem samanstendur að uppistöðu til af Luhansk- og Donetskhéruðum. Yfirvöld þar segja fjórtán almenna borgara hafa fallið í árásum Rússa á Donbashéruðin á þriðjudag og minnst fimmtán særst.