
Útlægir Katalónar endurheimta þinghelgi
Eftirlýst á Spáni
Puigdemont, Ponsati og Comín eru enn eftirlýst á Spáni þar sem þau eiga yfir höfði sér fangelsisdóm fyrir skipulagningu atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu sem hæstiréttur Spánar úrskurðaði ólöglega.
„Enn einn sigurinn vannst í dag,“ tísti Puigdemont um niðurstöðuna og sagði sjálfstæðissinnana á Evrópuþinginu ætla halda áfram að andmæla spænska ríkinu úr útlegð sinni í Brussel.
Ólögleg atkvæðagreiðsla
Puigdemont var helsti leiðtogi sjálfstæðishreyfingar Katalóníubúa á meðan hann var forseti héraðsstjórnarinnar. Hann boðaði til atkvæðagreiðslu árið 2017 um að lýsa yfir sjálfstæði. Ríflega níutíu prósent greiddu atkvæði með sjálfstæði en sambandssinnar sniðgengu hina ólöglegu atkvæðagreiðslu.
Í kjölfarið lýsti Puigdemont yfir sjálfstæði. Strax í kjölfarið frestaði hann gildistöku þeirrar yfirlýsingar til þess að eiga í viðræðum við Spánarstjórn.
Ekkert varð af þeim viðræðum. Puigdemont og nokkrir leiðtogar til viðbótar flúðu land þegar ákærur voru gefnar út og svo fór að níu voru dæmd í fangelsi. Lengstan dóm fékk Oriol Junqueras varaforseti, þrettán ára fangelsi. Hin fangelsuðu fengu náðun í fyrra og voru leyst úr haldi.
Svipt þinghelgi í mars
Puigdemont, Ponsati og Comín náðu kjöri á Evrópuþingið árið 2019 og nutu þar þinghelgi fram þar til þingmenn sviptu þau henni í mars.
Almenni dómstóll Evrópusambandsins staðfesti þá ákvörðun í júlí en nú er málið til meðferðar á efra dómstigi, hjá Dómstóli Evrópusambandsins. Þar var ákveðið í dag að veita þeim þinghelgi á ný, að minnsta kosti þar til endanleg niðurstaða fæst í málið.