Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óvægin skýrsla um brotthvarf Breta frá Afganistan

24.05.2022 - 02:40
British Prime Minister Boris Johnson talks to the President of Uruguay, Luis Lacalle Pou (not pictured) to 10 Downing Street during his visit in London, Britain, 23 May 2022.
 Mynd: EPA
Brotthvarf Breta frá Afganistan í ágúst einkenndist af skipulagsmistökum, lélegum undirbúningi og miklu stjórnleysi. Þetta kemur fram í óvæginni skýrslu utanríkismálanefndar breska þingsins.

Í skýrslunni segir að það sé hreinlega illa skipulagt stórslys hvernig staðið var að brotthvarfinu frá Afganistan, jafnt fyrir og á meðan á valdatöku talibana í landinu stóð.

Gríðarlegt hættuástand hafi blasað við Afgönum og þingmennirnir segja brotthvarfið svik við bandamenn Breta sem geti skaðað þjóðarhagsmuni til langs tíma.

Þegar í ágúst mátti ríkisstjórn Boris Johnsons þola ámæli fyrir þann hraða sem einkenndi brotthvarfið eftir að ákveðið var að feta í fótspor Bandaríkjanna og yfirgefa Afganistan.

Þar með lauk tuttugu ára veru erlends herliðs í landinu á augabragði. Allt þar til talibanar rændu völdum einkenndist viðhorf bresku ríkisstjórnarinnar af bjartsýni um að Bandaríkjamönnum snerist hugur.

Ríkisstjórnin er ávítt fyrir að hafa ekki áttað sig á hve hratt talibanar náðu yfirhendinni í landinu og alvarlegast þykir að hundruð Afgana sem áttu rétt á brottflutningi hafi verið skildir eftir, líklega í mikilli lífshættu.

Skipulagsleysi er enn kennt um þótt Bretar hafi vitað af fyrirhugðu brotthvarfi í eitt og hálft ár. Skjöl með upplýsingum um þarlent starfslið og fólk sem sótt hafði um atvinnu voru skilin eftir í breska sendiráðinu í Kabúl.

Meðan á brotthvarfinu stóð hrósaði Johnson aðgerðinni með þeim orðum að aldrei hefði annað eins sést. Um fimmtán þúsund manns voru flutt á brott á innan við hálfum mánuði.

Dominic Raab sem var utanríkisráðherra á þeim tíma var harðlega gagnrýndur fyrir að hafa ekki snúið heim úr fríi meðan á valdaráni talibana stóð.

Vinna hófst við gerð skýrslunnar í september en skýrsluhöfundar segja utanríkisráðuneytið iðulega hafa vísvitandi gefið óljósar upplýsingar, loðin og villandi svör. Hins vegar hafi tveir uppljóstrarar veitt nefndinni ómetanlegar upplýsingar.