Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fjöldamorð yfirvofandi á Donbas svæðinu

24.05.2022 - 12:03
People, fleeing from areas near the front line in Donetsk, board buses in Kurakhove, eastern Ukraine, Monday, May 23, 2022. In the Donbas region, people continue to flee from towns and villages coming under heavy bombardment. (AP Photo/Francisco Seco)
Íbúar við víglínuna flýja hver sem betur getur. Mynd: AP
Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, sakar Rússa um að hafa skipulagt fjöldamorð á Donbas svæðinu í austurhluta Úkraínu. Árásir á austurhéruðin hafa verið hertar til muna. Lettnesk fréttaveita segir skiptar skoðanir um gang Úkraínustríðsins í innsta hring valdakerfisins í Moskvu. Rætt sé um að koma Pútín forseta frá völdum.

Þrír mánuðir eru í dag frá því að Pútín skipaði rússneska hernum að ráðast inn í Úkraínu. Volodymyr Zelensky forseti sagði í sjónvarpsávarpi seint í gærkvöld að frá 24. febrúar hafi Rússar gert 1.474 flugskeytaárásir á Úkraínu og 2.275 árásir með annars konar skeytum, aðallega á almenna borgara. Loftárásir úr orrustuþotum og þyrlum væru fleiri en þrjú þúsund. 

Forsetinn sagði að hörðustu árásirnar um þessar mundir væru á Donbas svæðið, einkum Bakhmut, Popasna og Severdonetsk. Hann sakaði Rússa um að hafa fyrirskipað fjöldamorð á Donbas svæðinu. Engu lifandi skyldi þyrmt. Enginn sagði hann að hefði nokkru sinni eyðilagt jafn mikið í Donbas og rússneski herinn gerði nú. 

Ræða um arftaka Pútíns

Lettneska fréttaveitan Meduza hefur í dag eftir heimildum í innsta hring stjórnkerfisins í Kreml að þar á bæ sé farið að ræða um að koma Pútín forseta frá völdum. Sumir séu andvígir Úkraínustríðinu, öðrum þyki ekki nógu vel ganga. Að sögn fréttaveitunnar er byrjað að velta fyrir sér arftaka Pútíns. Þar beri hæst Sergei Sobyanin, borgarstjóra í Moskvu, Dmitry Medvedev, fyrrverandi forseta og forsætisráðherra, og Sergei Kiriyenko, náinn samstarfsmann og ráðgjafa forsetans.