Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Biden hvetur til árverkni vegna útbreiðslu apabólu

epa09965071 US President Joe Biden disembarks Air Force One upon landing at Yokota Air Base in Fussa, Tokyo suburbs, Japan, 22 May 2022. Biden arrived from South Korea for a three-day visit to Japan, where he will hold a meeting with Japan's Prime Minister Kishida Fumio and attend the Quad summit on 24 May.  EPA-EFE/FRANCK ROBICHON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, segir að almenningur verði að vera á varðbergi gagnvart útbreiðslu apabólu. Hann óttast að það hafi alvarlegar afleiðingar ef sjúkdómurinn dreifir sér frekar.

Biden, sem er í opinberri heimsókn í Japan, kveðst ekki hafa fengið nákvæmar upplýsingar um stöðu sjúkdómsins í Bandaríkjunum. Hann segir unnið af kappi við mat á viðbrögðum og hvort bóluefni sé fáanlegt og þá hvaða. Fyrsta tilfelli apabólu greindist í Bandaríkjunum 18. maí. 

Allmörg tilfelli hafa greinst í Norður-Ameríku og Evrópu frá því í byrjun mánaðarins. Heilbrigðisyfirvöld eru nokkuð uggandi yfir útbreiðslu sjúkdómsins sem hefur löngum verið landlægur á nokkrum svæðum í Afríku. 

Sjúkdómurinn er náskyldur bólusótt sem var að mestu útrýmt í kringum 1980. Apabóla er þó mun mildari sjúkdómur og sjaldan banvænn. Helstu einkennin eru útbrot í andliti sem síðan dreifa sér um allan líkamann, hiti, vöðvaverkir og kuldaköst. Sjúklingar ná sér yfirleitt að fullu innan fárra vikna. 

Alnæmisstofnun Sameinuðu þjóðanna lýsti því yfir í dag að fjölmargar fréttir fjölmiðla af apabóluveirunni væru litaðar af kynþáttafordómum og hómófóbíu.