
Biden hvetur til árverkni vegna útbreiðslu apabólu
Biden, sem er í opinberri heimsókn í Japan, kveðst ekki hafa fengið nákvæmar upplýsingar um stöðu sjúkdómsins í Bandaríkjunum. Hann segir unnið af kappi við mat á viðbrögðum og hvort bóluefni sé fáanlegt og þá hvaða. Fyrsta tilfelli apabólu greindist í Bandaríkjunum 18. maí.
Allmörg tilfelli hafa greinst í Norður-Ameríku og Evrópu frá því í byrjun mánaðarins. Heilbrigðisyfirvöld eru nokkuð uggandi yfir útbreiðslu sjúkdómsins sem hefur löngum verið landlægur á nokkrum svæðum í Afríku.
Sjúkdómurinn er náskyldur bólusótt sem var að mestu útrýmt í kringum 1980. Apabóla er þó mun mildari sjúkdómur og sjaldan banvænn. Helstu einkennin eru útbrot í andliti sem síðan dreifa sér um allan líkamann, hiti, vöðvaverkir og kuldaköst. Sjúklingar ná sér yfirleitt að fullu innan fárra vikna.
Alnæmisstofnun Sameinuðu þjóðanna lýsti því yfir í dag að fjölmargar fréttir fjölmiðla af apabóluveirunni væru litaðar af kynþáttafordómum og hómófóbíu.