Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Albanese tekinn við sem forsætisráðherra Ástralíu

23.05.2022 - 04:00
epaselect epa09964919 Incoming prime minister Anthony Albanese (L) leaves his house with his partner Jodie Haydon (R) and his dog Toto in Marrickville,  Sydney, Australia, 22 May 2022. Anthony Albanese will become Australia's 31st prime minister and just the fourth person to lead Labor to government from opposition since World War II.  EPA-EFE/DEAN LEWINS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Anthony Albanese er tekinn við sem forsætisráðherra Ástralíu. Hann sór embættiseið við hátíðlega athöfn í þinghúsinu í höfuðborginni Canberra á mánudagsmorgni að staðartíma. Hann heldur umsvifalaust til Japans til að taka þátt í fjögurra ríkja ráðstefnu.

Penny Wong verður utanríkisráðherra í stjórn Albaneses. Hún hefur verið öldungadeildarþingmaður fyrir Suður-Ástralíu frá 2002 og tvisvar gegnt ráðherraembætti áður.

Við embættistökuna lagði Albanese ríka áherslu á áherslur stjórnar sinnar í loftslagsmálum. Enn liggur ekki fyrir hvort Verkamannaflokkur forsætisráðherrans hefur náð hreinum meirihluta í fulltrúadeild þingsins.

Bráðabirgðatölur sýna að enn sé flokkurinn fjórum sætum frá því og verði það niðurstaðan þykir líklegast að Albanese leiti stuðnings græningja og óháðra þingmanna. Talið er að nokkrir dagar kunni að líða uns öll póstatkvæði hafa verið talin.  

Segir breytinga að vænta í stjórnarstefnu Ástralíu

Grannt verður fylgst með því hvort samskiptin við stjórnvöld í Kína verði mildari nú en í stjórnartíð Scotts Morrisons, forvera Albaneses. Ráðherrafundir ríkjanna hafa ekki verið haldnir undanfarin tvö ár. 

Albanese kveðst ætla að halda einkafundi með Joe Biden Bandaríkjaforseta, Fumio Kishida forsætisráðherra Japans og Narendra Modi forsætisráðherra Indands á þriðjudaginn.

Þá hefst ráðstefna þessarra fjögurra ríkja í Tókíó, höfuðborg Japans. Albanese segir mikið forgangsmál að taka þátt í henni og að með fundunum geti hann sent þau skilaboð að breytinga sé að vænta á stjórnarstefnu Ástrala.

Einkum eigi það við um loftslagsmál en í kosningabaráttunni hét Albanese því að herða aðgerðir til að draga úr kolefnislosun. Albanese stoppar stutt í Japan og flýgur aftur heim á miðvikudag.