Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Viljum skora svolítið á Framsókn að taka af skarið“

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, segist hafa viljað taka greinilegt skref fram á við þegar kemur að meirihlutamyndun með útspili sínu í dag.

Þórdís Lóa ítrekaði bandalag sitt við Samfylkinguna og Pírata og lýsti yfir vilja til að bjóða Framsókn til formlegra viðræðna.

„Ég var í dag mjög skýr með það að við erum í þessu bandalagi af heilum hug og viljum bara hefja leika og skora svolítið á Framsókn að taka af skarið.“

Þannig þetta útilokar Sjálfstæðisflokkinn?

„Þetta er bara það bandalag og sú umgjörð sem við sjáum að er best og viljum fara.“

Hefur Sjálfstæðisflokkurinn þrýst á ykkur að fara hina leiðina?

„Við höfum alveg verið í samtölum alla vikuna, langflestir oddvitar, og sá tími er liðinn. Síðasta vika var nokkuð góð og mér fannst nokkuð klókt af Framsóknarflokknum að taka sér sinn tíma. Núna erum við að fara inn í seinni viku og mér fannst mikilvægt að við í Viðreisn værum skýr.“

Þórdís Lóa segist ekki hafa heyrt í Sjálfstæðisflokki eftir þetta útspil. Hún býst við því að meiri gangur komist í viðræður í vikunni, eftir að síðasta vika var notuð til þess að þreifa fyrir sér.