Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Skipað að hylja andlit sín algjörlega í útsendingum

22.05.2022 - 10:25
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Kvenkyns fréttaþulum á helstu fréttamiðlum í Afghanistan hefur verið skipað af talibönum að hylja andlit sín algjörlega í sjónvarpsútsendingum.

Afganskar sjónvarpskonur á helstu fréttamiðlum landsins huldu andlit sitt í útsendingu í morgun. Þær gerðu það ekki í gær. Hibatullah Akhundzada, æðsti leiðtogi Afganistan, hefur fyrirskipað öllum konum hylja sig algerlega, helst með því að klæðast búrku.

Í gær buðu sjónvarpskonur þeirri fyrirskipun birginn og töluðu blæjulausar til landsmanna af sjónvarpsskjánum. Sonia Niazi, sem vinnur á Tolo stærstu fréttastofu landsins, segir að talibanar hafi umsvifalaust sent þau skilaboð til stjórnenda stöðvarinnar að konur sem endurtækju þann leik skyldu færðar til í starfi eða hreinlega fjarlægðar.

Í morgun mættu konurnar því til starfa íklæddar hijab, hettuslæðu og með blæju fyrir neðri hluta andlitsins.

rebekkali's picture
Rebekka Líf Ingadóttir
Fréttastofa RÚV