Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Póllandsforseti styður aðildarumsókn Úkraínu

epa09966128 Polish President Andrzej Duda addresses lawmakers during his visit to the Ukrainian Parliament in Kyiv, Ukraine, 22 May 2022. Andrzej Duda arrived in Ukraine to meet with top officials and express his support for Ukraine amid the Russian invasion.  EPA-EFE/ANDRII NESTERENKO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Forseti Póllands heitir Úkraínu fullum stuðningi við umsóknarferlið að inngöngu í Evrópusambandið. Hann segir að virða beri vilja þess fólks sem lætur lífið í þágu Evrópu.

Tónninn í Andrzej Duda Póllandsforseta er annar en í leiðtogum Frakka og Þjóðverja sem segja að ekki sé hægt að flýta umsóknarferli Úkraínu þrátt fyrir innrás Rússa í landið.

Clement Beaune, Evrópumálaráðherra Frakklands, segir að fimmtán til tuttugu ár geti liðið uns umsókn Úkraínumanna verði endanlega samþykkt. Duda lét framangreind orð falla á sameiginlegum blaðamannafundi með Volodymyr Zelensky Úkraínuforseta.

Hann kvaðst ekki efast um að Evrópusambandið tæki undir orð sín en framkvæmdastjórn sambandsins birtir fyrstu skoðun sína á aðildarumsókn Úkraínu 24. júní.

Pólland er það ríki sem tekið hefur á móti flestu flóttafólki frá Úkraínu auk þess sem Pólverjar eru ötulir í stuðningi sínum við Úkraínu innan Evrópusambandsins.

Duda sagði einmitt í ræðu á úkraínska þinginu í dag að yrði aðild Úkraínu samþykkti mætti helst þakka það Pólverjum. Þetta er í fyrsta sinn sem þjóðarleiðtogi ávarpar þingið frá innrás.

Duda sagði að útilokað væri að halda áfram samskiptum við Rússa eins og ekkert hefði í skorist í ljósi meintra fjöldamorða þeirra á almennum borgurum Úkraínu.

Ekki mætti halda samningaviðræður eða taka ákvarðanir um framtíð Úkraínumanna án beinnar aðkomu þeirra, sagði Duda um leið og hann hyllti landsmenn fyrir að verjast því sem hann kallaði villimannlega innrás og nýja rússneska heimsvaldastefnu.