Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Nokkrar tilslakanir í Shanghai

22.05.2022 - 23:00
epa09954341 Workers disinfect public bicycles in Beijing, China, 18 May 2022. Beijing continues its mass testing as part of its effort to curb the spread of COVID-19 in the city while authorities in Shanghai announced a relaxed lockdown starting on 01 June 2022. China's strict 'dynamic zero-COVID' strategy has dragged its economy into the lowest level of consumption and industrial production since early 2020 as authorities have imposed partial and full lockdowns in different cities across the country.  EPA-EFE/MARK R. CRISTINO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Almenningssamgöngur hófust að hluta til í kínversku borginni Shanghai í morgun. Það er til marks um að lífið þar sé smám saman að færast í fyrra horf eftir nærri tveggja mánaða einangrun vegna útbreiðslu COVID-19.

Þessi stærsta borg Kína hefur verið nánast alveg lokuð frá því í apríl þegar hún varð þungamiðja þyngstu bylgju kórónuveirufaraldursins til þessa.

Kínverjar hafa ríghaldið í núllstefnuna með hörðum samkomutakmörkunum, útgöngubanni og fjöldaskimunum til að halda aftur af útbreiðslu veirunnar. Það hefur reynst þeim þrautin þyngri í glímunni við omíkron-afbrigðið.

Smám saman hefur þó hægst á nýgengi smita og því hafa borgaryfirvöld varfærnislega dregið úr takmörkunum með því að heimila nokkrum verksmiðjum að hefja vinnslu að nýju. Einnig hefur íbúum þeirra hverfa þar sem minnst hætta þykir á smiti verið heimilað að fara úr húsi. 

Útgöngubann var í morgun fyrirskipað að nýju fyrir íbúa Jing-hverfisins, miðsvæðis í borginni. Þar verður gerð þreföld sýnataka og engum annars leyft að yfirgefa heimili sín.

Sóttvarnatakmarkanir eru viðhafðar í öðrum borgum Kína, þeirra á meðal höfuðborginni Beijing. Almenningi er óheimilt að fara út að borða og milljónum hefur verið skipað að vinna heima hjá sér.

Næstum fimm þúsund íbúar Nanxinyuan-hverfis voru fluttir á sóttkvíarhótel eftir að 26 tilfelli greindust þar. Almennt óttast borgarbúar að sóttvarnatakmarkanir verðir hertar uns þær verða eins og í Shangai en þar fór svo að fólk gat vart útvegað sér mat eða fengið læknisaðstoð.