Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ísland lagði Ástralíu og fer upp í a-riðil 2. deildar

Mynd með færslu
 Mynd: ÍHÍ - Facebook

Ísland lagði Ástralíu og fer upp í a-riðil 2. deildar

22.05.2022 - 16:46
Kvennalandslið Íslands í íshokkí mætti Ástralíu í dag í lokaleik sínum í b-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins. Íslenska liðið vann 2-1 eftir bráðabana, og vann alla leiki sína í riðlinum og fer upp um deild.

Bæði lið voru ósigruð fyrir leikinn í dag og var þetta því úrslitaleikur um sigurinn. Sunna Björgvinsdóttir kom Íslandi yfir í lok annars þriðjungs. Ástralska liðið jafnaði svo metin eftir 7 mínútur í lokaþriðjungnum og þannig stóð að loknum venjulegum leiktíma.

Við tók framlenging þar sem hvorugt liðið náði að skora og þá var gripið til bráðabana. Fjögur fyrstu víti hvors liðs klikkuðu en Silvía Björgvinsdóttir skoraði úr fimmta víti Íslands. Birta Helgadóttir varði svo fimmta víti Ástralíu og tryggði Íslandi þar með sigurinn, 2-1.

Ísland endar með 11 stig í riðlinum, stigi meira en Ástralía. Íslenska liðið fer upp um deild með þessum árangri og leikur í a-riðli 2. deildar á næsta ári.