Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hvetur fólk til að forðast náin samskipti við ókunnuga

Mynd með færslu
 Mynd: Matthias Zomer - Pexels
Ekki er unnt að greina apabólu með fullnægjandi hætti hér á landi en verið er að þróa aðferð til þess. Til þess að forðast smit ætti fólk ekki að eiga í nánum samskiptum við fólk sem það þekkir ekki, segir yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar.

Apabóla hefur nú greinst í fjórtán löndum hið minnsta og eru tilfellin yfir áttatíu talsins. Bólan hefur til að mynda stungið sér niður í Noregi, Svíþjóð, á Bretlandi og Spáni. Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í dag apabólan væri áhyggjuefni því ef hún nær útbreiðslu hefði það víðtæk áhrif. Sóttvarnayfirvöld í Belgíu hafa ákveðið að þeir sem greinast þar sæti þriggja vikna einangrun. 

Sýni send til Svíþjóðar

Apabóla hefur ekki greinst hér á landi. Til eru próf hér og jákvæð niðurstaða úr þeim gefur sterka vísbendingu um að viðkomandi geti verið með apabólu. Guðrún Svanborg Hauksdóttir, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala, segir að vakni grunur um apabólu verði sýni sent til Svíþjóðar til staðfestingar. 

„En það er verið að þróa aðferð og við bíðum bara eftir hvarfefnunum. Þegar þau verða komin ætti ekki að líða á löngu þangað til við verðum komin með aðferð til að greina hana hérna á Íslandi,“ segir Guðrún.

Hafa þegar verið send einhver sýni úr landi?

„Nei, ekki enn þá. En við erum reiðubúin þegar það berst,“ segir Guðrún.

Guðrún segir viðbúið að það taki nokkra daga að fá niðurstöðu frá Svíþjóð. Greiningaraðferðin sem verið er að þróa á sýkla- og veirufræðideildinni er hin kunnuglega PCR-aðferð. Guðrún býst við að aðferðin verði tekin í notkun eftir tvær til þrjár vikur.

Apabóla er sjúkdómur sem sprettur af veirusýkingu. Einkenna verður vart einni til þremur vikum eftir smit.

Fyrstu einkenni apabólu eru hiti, höfuðverkur, vöðvaverkir, bakverkur, eitlabólga og þreyta. Þá fylgja þessu útbrot og kláði, blöðrur sem breytast í hrúður. Vessinn í blöðrunum er smitandi en líka hósti. Útbrotin byrja oft í andliti en færast síðan niður líkamann.

Margir þeirra sem hafa greinst eru karlmenn sem stunda kynlíf með körlum. „Sjúkdómurinn er yfirleitt vægur og gengur yfir af sjálfsdáðum á einni til tveimur vikum. Hjá um 3% smitaðra getur hann hins vegar verið alvarlegur og valdið dauða, einkum hjá ónæmisbældum einstaklingum og börnum,“ segir í frétt á vef Landlæknisembættisins.

En hvernig getur fólk forðast að smitast?

„Það er bara að forðast náin samskipti við fólk sem maður þekkir ekki alltof vel. Það þarf náin samskipti til að smitast. Maður þarf að snerta virkilega útbrot og þess háttar. Þannig að það er bara að gæta sín,“ segir Guðrún.