Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Varar við útbreiðslu apabólu í Evrópu

21.05.2022 - 01:15
epa08326563 WHO European director Hans Kluge gives status on the Danish handling of coronavirus during a press breefing in Eigtved's Pakhus, Copenhagen, Denmark, 27 March 2020. Countries around the world are taking increased measures to stem the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the Covid-19 disease.  EPA-EFE/IDA GULDBAEK ARENTSEN DENMARK OUT
 Mynd: RITZAU SCANPIX - EPA-EFE
Umdæmisstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Evrópu varar við að tilfellum apabólu kunni að fjölga mjög í álfunni næstu mánuði. Vitað er að sjúkdómurinn hefur skotið sér niður í átta ríkjum.

Umdæmisstjórinn Hans Kluge kveðst óttast aukna útbreiðslu nú í upphafi sumars þegar mannfagnaðir, hátíðir og veisluhöld eru í algleymingi. Hann segir útbreiðsluna á vesturlöndum harla óvenjulega.

Helstu einkenni apabólu eru útbrot í andliti sem loks dreifa sér um allan líkamann, hiti, vöðvaverkir og kuldaköst. Hún er sjaldan banvæn og fólk nær sér innan tveggja til fjögurra vikna.

Apabóla er algengust á afskekktum svæðum í Mið- og Vestur-Afríku og smit annars staðar tengjast yfirleitt ferðalögum þangað. Kluge segir hins vegar að aðeins eitt smit megi rekja til manns sem var á ferð þar um slóðir.

Hann segir að tengja megi smitin frjálslegri kynlífshegðun, flestir smitaðir séu samkynhneigðir karlmenn. Það kemur einnig fram í yfirlýsingu Alþjóðheilbrigðisstofnunarinnar sem rannsakar nú útbreiðslu sjúkdómsins.

Kluge segir mennina hafa leitað sér lækninga á kynsjúkdómadeildum sjúkrahúsa. Almennt þekki fólk ekki einkennin en Kluge telur að nokkuð sé síðan fyrstu einstaklingarnir smituðust.