Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Tveir handteknir grunaðir um íkveikju

Mynd með færslu
 Mynd: Slökkvilið höfuðborgarsvæð
Einn bíll á vegum slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var sendur laust eftir klukkan þrjú í nótt til að slökkva eld í vinnuskúr í Elliðaárdal fyrir neðan Árbæjarhverfi.

Að sögn varðstjóra gekk vel að slökkva eldinn en talið er að skúrinn sé algerlega ónýtur. Mikill gróður er í kringum skúrinn en engin hætta var á að gróðureldur yrði laus.

Lögreglan handtók tvo menn grunaða um íkveikju. Ástand þeirra var annarlegt að því er fram kemur í tilkynningu lögreglu og þeir vistaðir í fangaklefa. 

Lögreglan þurfti að sinna þó nokkuð mörgum málum sem tengjast ölvun og öðru annarlegu ástandi. Sömuleiðis var tilkynnt um minniháttar pústra í miðborginni, eins var talsvert um kvartanir vegna hávaða frá heimahúsum og skemmtistöðum.