Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tilskipun sem stöðvar för hælisleitenda áfram í gildi

epa07122295 United States Border Patrol agents stand near a section of the recently renovated US-Mexico border wall (background) , in Calexico, California, USA, on 26 October 2018. US Department of Homeland Security Secretary Kirstjen Nielsen made a visit to the 30-foot high wall, which replaces a previous wall that was made of corrugated metal sheets.  EPA-EFE/David Maung
 Mynd: David Maung - EPA
Alríkisdómari í Bandaríkjunum úrskurðaði í dag að tveggja ára gömul tilskipun skyldi halda gildi sínu en með henni má stöðva för allra sem ekki hafa vegabréfsáritun yfir landamærin frá Mexíkó. Tilskipunin átti að renna sitt skeið á mánudag.

Stjórn Joe Biden núverandi Bandaríkjaforseta segir tilskipunarinnar ekki lengur þörf en Donald Trump kom henni á við upphaf kórónuveirufaraldursins.

Gagnrýnendur segja tilskipunina illa hafa þjónað tilgangi sínum, hún hafi hvorki dugað sem heilbrigðisúrræði né viðbragð í innflytjendamálum.  

Yfir tuttugu ríkisstjórar úr röðum repúblikana höfðuðu mál til að tryggja áframhaldandi gildi tilskipunarinnar með þeim rökum að afnám hennar kæmi af stað flóðbylgju innflytjenda. Innflytjendamál eru afar eldfim vestra.

Robert Summerhays dómari féllst á röksemdir ríkisstjóranna og alríkisstjórnin kvaðst hlíta niðurstöðunni. Hins vegar yrði málinu áfrýjað enda væri dómsmálaráðuneytið ósammála niðurstöðunni.

Mannréttindasamtök brugðust hart og ókvæða við niðurstöðunni sem þau sögðu skaða hælisleitendur áfram og ennþá skapa glundroða við landamærin.