Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Silja Bára nýr formaður Rauða krossins á Íslandi

21.05.2022 - 16:17
Mynd með færslu
 Mynd: Rauði krossinn
Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, var á aðalfundi í dag kjörin formaður Rauða krossins á Íslandi. Hún segir að langtímaáherslur félagsins séu viðbrögð við loftslagsbreytingum og aðstæður flóttafólks.

Hún tekur við formannssætinu af Sveini Kristinssyni sem gegnt hefur formennsku síðastliðin átta ár. Silja Bára segist vera stolt og þakklát. „Hafandi kynnst starfinu síðustu fjögur ár, bæði í stjórn og sem varaformaður, þá var ég áhugasöm um að taka þetta að mér og bauð mig fram. Ég er bara mjög þakklát og stolt að hafa verið treyst fyrir þessu verkefni.“ 

Fjölbreytt starf 

 

Hún segir að þetta sé umfangsmikið starf og verkefnin mörg. Það sem félagið leggi áherslu á til lengri tíma séu viðbrögð við loftslagsbreytingum og aðstæður flóttafólks og farenda. Nú séu helstu verkefni Rauða krossins tengd innrásinni í Úkraínu. Að safna fé, aðstoða flóttafólk og taka á móti því. Þá sé Úkraína mikilvægt framleiðsluland ýmissa matvæla. 

„Langvarandi átök þar geta þýtt að matur verður dýrari, það verður erfiðara að flytja mat til landsins, það getur haft áhrif á þau sem veikar standa í okkar eigin samfélagi. Fyrir utan aðstæður fólks til dæmis í Afríku þar sem erfitt er að nálgast mat til að byrja með. Þannig þetta eru allt verkefni sem við erum að horfa fram á. “

Hefur ekki áhrif á kennsluna

Silja Bára segir að formannsstaðan muni ekki hafa áhrif á starf hennar í Háskólanum. Hún haldi þar fullri stöðu sem prófessor í alþjóðasamskiptum. „Nei, þetta er sjálfboðastarf, þetta kemur bara ofan á allt annað.“

Fundurinn fór fram á Grand hótel í dag og var ný stjórn kjörin. Sigríður Stefánsdóttir var kjörin varaformaður. Þá voru þau Ívar Kristinsson, Margrét Dögg Guðgeirsdóttir Hjarðar, Sigurjón Haukur Valsson, Símon Friðrik Símonarson og Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir kjörin í stjórn.  Áfram sitja í stjórninni þau Baldur Steinn Helgason, Elín Ósk Helgadóttir, Gréta María Grétarsdóttir og Sveinn Þorsteinsson. Varamenn voru kjörin Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir og Unnsteinn Ingason.