Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Beðið í röðum eftir þjónustu fyrsta neyslurýmisins

Mynd: Eggert Þór Jónsson / Fréttir
Fólk býður í röðum eftir þjónustu neyslurýmis sem nú hefur verið starfrækt í tvo mánuði. Rauði krossinn annar ekki eftirspurn og kallar eftir öðru og stærra rými. 

140 heimsóknir frá 40 einstaklingum

Neyslurými er verndað umhverfi þar sem sprauta má vímuefnum í æð undir eftirliti. Þjónustan á að  koma í veg fyrir dauðsföll og ofskömmtun. Ylja, fyrsta neyslurýmið hér á landi, var opnað í mars.

Hafrún Elísa Sigurðardóttir er verkefnastýra frú Ragnheiðar. 

„Það er mikil aðsókn til okkar. Það eru 140 heimsóknir komnar þar sem eru í kringum 40 einstaklingar sem leita til okkar og við eigum oft erfitt með að anna eftirspurn þar sem það eru margir sem vilja koma til okkar og það getur stundum verið erfitt að þjónusta alla sem vilja koma til okkar,“ segir Hafrún. 

Rauði krossinn heldur utan um reksturinn fyrir Reykjavíkurborg. Hafrún segir að aðsóknin sé svo mikil að oft myndist raðir fyrir utan. Annað og stærra rými þurfi til að anna eftirspurn. Um 700 nota vímuefni í æð á Íslandi og þeim fer fjölgandi.
 
„Ég held að það þurfi klárlega neyslurými þar sem er lengri opnunartími, þar sem að fleiri geta komið inn í einu og þar sem við erum í einhvers konar húsnæði.“

Hafa byggt upp gott traust við notendur

Neyslurýmið er nú starfrækt í bíl sem er miðsvæðis og opinn á daginn þegar gistiskýlin eru lokuð. Tveir starfsmenn eru alltaf á á vakt og grípa inn í ef á þarf að halda. 

„Eru notendur ánægðir með þetta framtak? Þau eru mjög ánægð. Við erum að byggja upp mjög gott traust með þeim og erum að veita líka mikinn félagslegan stuðning í heimsóknum þegar þau koma til okkar.“

- Er eitthvað sem þið hafið rekið ykkur á sem þið þurfið að læra af?

„Nei ég get ekki sagt það. Við erum alltaf að læra náttúrulega og viljum fá að heyra frá þeim hvað þeim finnst, hvað er gott og hvað er slæmt, en við erum ekki að reka okkur á neina þröskulda þannig nei. “