
Vilja tryggja aðgengi almennings að reiðufé
Fjármálaráðuneytið breska greindi frá því í gær að fjármálaeftirliti landsins yrði gert kleift með nýrri löggjöf að krefja helstu banka landsins um tryggja aðgengi fólks að seðlum.
Ekki var sérstaklega greint frá þeim meðulum sem fjármálaeftirlitið hefði til þess en John Glen efnahagsráðherra sagðist vita að ákveðnir, viðkvæmir hópar í samfélaginu reiddu sig enn á notkun reiðufjár.
Fjármálaráðuneytið telur að um 5,4 milljónir Breta séu í þeim hópi og efnahagsráðherrann sagði því áríðandi að enginn yrði út undan þrátt fyrir aukna tæknivæðingu.
Breskir bankar loka útibúum sínum af miklu kappi, Lloyds-bankinn greindi frá því í gær að til stæði að hætta starfsemi 28 útibúa til viðbótar við þau 60 sem tilkynnt var um fyrr á þessu ári.
Viðskiptavinir hölluðu sér mjög að notkun heimabanka meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð. Neytendafélagið Which? segir að helmingi allra fimm þúsund bankaútibúa landsins hafi verið lokað á árunum 2015 til 2022, langflestum þeirra í Skotlandi.