Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óska eftir samráði um umdeilt frumvarp

19.05.2022 - 11:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mikilvægt er að stjórnvöld hafi samráð við fagaðila um umdeilt frumvarp til útlendingamála, segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. Fimmtán samtök og stofnanir skora á ríkisstjórnina að dýpka samráð og ná faglegri sátt um útlendingalög. Umdeilt frumvarp að útlendingalögum var tekið til fyrstu umræðu á Alþingi í vikunni.

Í sameiginlegri yfirlýsingu segir að samtök og stofnanir hafi lýst skorti á samráði við gerð frumvarpsins og verulegum vanköntum á efni þess. Jafnframt að frumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi hafi aðeins verið breytt örlítið frá því það var í umsagnarferli fyrr á árinu, þrátt fyrir að það sé mjög umdeilt.

„Í öllum þessum umsögnum sem fram hafa komið um útlendingalögin þá tala allir um skort á samráði,“ segir Kristín. „Einhvers hefur verið tekið tillit til en alls ekki nógu mikið.“

Samtökin fimmtán sem standa að yfirlýsingunni eru: Alþýðusamband Íslands, Barnaheill –Save the Children á Íslandi, Geðhjálp, Hjálparstarf kirkjunnar, Íslandsdeild Amnesty International, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði krossinn á Íslandi, Samtökin 78, Siðmennt, WOMEN in Iceland, UN Women á Íslandi, UNICEF á Íslandi og Öryrkjabandalag Íslands.

Í yfirlýsingunni er lýst miklum mun á aðdraganda lagasetningar um málefni útlendinga nú og árið 2017. Þá hafi lögin verið unnin í þverpólitísku og þverfaglegu samráði sem hafi skilað sér í verulegum réttarbótum fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Nú skorti hins vegar á það. Kristín hefur trú á að samráð verði bætt og vísar til stjórnarsáttmála. „Það kemur fram að auka þarf traust og gagnsæi um ákvarðanir útlendingayfirvalda. Það er talað um að samtalið sé til góðs. Ég hef fulla trú á því að það verði bætt úr.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Frá mótmælum á Austurvelli í fyrra.