
Segir brýnt að Kanada viðurkenni brot gegn frumbyggjum
Justin Trudeau, forsætisráðherra tók á móti þeim ásamt Mary Simon sem er fyrsti yfirlandsstjóri Kanada af ættum frumbyggja. Brot Kanadastjórnar gegn frumbyggjum barst fljótlega í tal.
Simon hvatti prinsinn til að ræða við fulltrúa þeirra í heimsókn sinni, sem hún sagði að hlyti að auka á líkur á því að skilningur og virðing aukist og ekki síst að lausn finnist.
Talið er að þúsundir barna af frumbyggjaættum hafi látist af völdum illrar umhirðu og vannæringar í heimavistarskólum víðs vegar um Kanada. Á annað þúsund ómerktra grafa hefur fundist á undanförnum misserum og árum.
Um 150 þúsund frumbyggjabörn voru send í heimavistarskóla frá lokum nítjándu aldar og fram á tíunda áratug þeirrar tuttugustu. Grafir hafa fundist í Bresku Kólumbíu og Saskatchewan, sem kveikti mikla reiði meðal almennings í Kanada.
Heimsókn Karls og Camillu til Kanada er hluti hátíðahalda í tilefni þess að Elísabet II Bretadrottning hefur setið að völdum í sjötíu ár. Fulltrúar konungsfjölskyldunnar hyggjast því heimsækja þá hluta samveldisins sem eru utan Bretlandseyja.