
„Gjörbætir möguleika þeirra sem glíma við ófrjósemi“
Ef slitnar upp úr hjónabandi eða sambúð eða annar aðilinn fellur frá er fósturvísunum sem fólkið kann að eiga eytt, -jafnvel þó fyrir liggi samþykki kynfrumugjafa um að annar aðilinn eða annar utanaðkomandi fái að nýta fósturvísana síðar.
„Þegar að fólk til dæmis skilur þrátt fyrir að það sé 100% samkomulag þeirra í milli um að annar hvor aðilinn vilji nýta þann fósturvísi sem að þau eiga í geymslu að þá er lagt blátt bann við því,“ segir Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjáfstæðisflokks, sem mælir fyrir frumvarpinu.
Nýja frumvarpið tekur þessa kröfu um gilt hjúskaparform úr gildi.
Snorri Einarsson, sérfræðingur í ófrjósemi, tekur dæmi um samkynhneigt par þar sem kona gefur egg, eða notar sín egg, og gjafasæði og gerir það í sambandi við aðra konu.
„Til verða fósturvísar sem eru geymdir, síðan er ákveðið að slíta þessari samvist og þá eru þessir fósturvísar með eggjum þessarar konu og gjafasæði en þá ber okkur lögum samkvæmt að eyða þeim.“
Hildur segir að með samþykkt frumvarpsins sé verið að opna fyrir að það megi gefa fullbúinn fósturvísi, sem er bannað samkvæmt núgildandi lögum, þrátt fyrir að það myndi hjálpa mörgum.
„Samkvæmt núgildandi reglum þá má þiggja gjafaegg og það má þiggja gjafasæði en það má ekki þiggja fullbúinn fósturvísi, þrátt fyrir að það gæti verið einhverjum til aðstoðar.“
Snorri segir mikla þörf á gjafakynfrumum.
„Og við leggjum mikið á okkur við að fá fólk til að gefa kynfrumur sínar vegna þess að það eru margir sem þurfa á þeim að halda. Það er alveg hikstalaust þannig að gjafafósturvísar myndu enn bæta í lausnir við þeirri þörf.“
„Ég veit að þetta mun hjálpa einhverjum og það er nóg“ segir Hildur.