Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þaulsætnasti núverandi bæjarstjórinn er í Snæfellsbæ

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, er að hefja sitt sjöunda kjörtímabil. Hann hefur gegnt starfi bæjarstjóra í 24 ár og hefur enginn af nú starfandi framkvæmdastjórum sveitarfélags verið lengur í starfi. „Þetta er lífsstíll, ég hef alltaf sagt það. Ég hef rosalega gaman af samfélagsmálum og hef alltaf brunnið fyrir það,“ segir Kristinn.

Tveir framboðslistar voru í sveitarstjórnarkosningunum í Snæfellsbæ. J-listi bæjarmálasamtaka Snæfellsbæjar og D-listi Sjálfstæðisflokks. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut meirihluta eða fjóra fulltrúa af sjö. Kristinn Jónasson á ekki sæti á listanum en er sem fyrr bæjarstjóraefni flokksins.

„Ég held áfram. Þannig að ég verð núna sjöunda kjörtímabilið, að fara inn á það,“ segir Kristinn.

Hvað hefurðu þá verið bæjarstjóri í mörg ár?

„Núna er ég búinn að vera í 24 ár og ef allt gengur að óskum og guð lofar verða það 28 ár,“ segir Kristinn.

Færðu ekkert leið á starfinu?

„Nei, þetta er lífsstíll, ég hef alltaf sagt það. Ég hef rosalega gaman af samfélagsmálum og hef alltaf brunnið fyrir það. Faðir minn var nú sveitarstjóri í 30 ár og ég þekkti þetta mjög vel, þekki þennan málaflokk og þetta er eitthvað sem mér finnst virkilega gaman að vinna við,“ segir Kristinn.

Það eru fáir sem eru jafnlanglífir í starfi bæjarstjóra, sveitarstjóra eða borgarstjóra og þú?

„Það er enginn í dag sem er búinn að vera eins lengi. En við þekkjum öll söguna af Sigurgeiri á Seltjarnarnesi. Ég kynntist nú honum. Hann var starfandi þegar ég byrjaði, frábær maður, blessuð sé minning hans. Ég held að hann hafi verið í 37 ár. Það verður mjög langt þangað til hann verður sleginn út, hans met,“ segir Kristinn.