Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Telur að Finnland verði aðili að NATO á þessu ári

17.05.2022 - 06:55
epa09939756 Finland's Prime Minister Sanna Marin attends a signing ceremony at Japan?s Prime Minister (not pictured) official residence in Tokyo, Japan, 11 May 2022. Both parties signed a working holiday agreement.  EPA-EFE/FRANCK ROBICHON / POOL
 Mynd: epa
Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, telur að landið verði orðið fullgildur meðlimur í Atlantshafsbandalaginu, NATO, áður en árið er úti. Þetta sagði Marin í umræðuþætti í finnska ríkissjónvarpinu í gær. Sauli Niinistö Finnlandsforseti tilkynnti það formlega á sunnudag að Finnland myndi sækja um aðild að bandalaginu. Greidd verða atkvæði um tillögu þar að lútandi á finnska þinginu í dag.

Í umræðuþætti á YLE, finnska ríkissjónvarpinu, sagðist Marin telja að Finnland gangi í NATO á þessu ári. Aðspurð hvort það væri raunhæft að áætla að fullgild aðild gæti orðið að veruleika strax í haust sagðist forsætisráðherrann gera sér vonir um að það yrði enn fyrr og að hún myndi gera sitt ítrasta til flýta ferlinu eins og hægt er.

Hún sagðist ekki hafa miklar áhyggjur af andstöðu Tyrkja og telur að jafna megi hvern þann ágreining sem þeir hafi gert um aðild Finna og Svía með samtali og samningum.

Atkvæðagreiðsla á þinginu í dag eftir miklar umræður

Aðildarumsóknin var rædd á finnska þinginu í gær. Umræður stóðu fram á nótt og voru með líflegra móti, þar sem þingmenn fluttu 212 erindi á 14 klukkustundum. Áætlað er að þing komi saman á hádegi í dag að finnskum tíma til að greiða atkvæði um fyrirliggjandi tillögu um að sækja skuli um aðild að NATO. Gengið er út frá því sem vísu að hún verði samþykkt.