Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir góð verk og gott fólk skapa sigur Miðflokksins

17.05.2022 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Ingvarsson - RÚV
Öfugt við sum önnur sveitarfélög þar sem Miðflokkurinn bauð fram, vann hann stórsigur í Grindavík og þrefaldaði fylgi sitt. Oddvitinn þakkar það starfinu á síðasta kjörtímabili og góðum frambjóðendum. Slæmt gengi annars staðar skrifist ekki á vonda frambjóðendur.

Miðflokkurinn reið ekki feitum hesti frá sveitarstjórnarkosningunum. Tapaði bæjarfulltrúum víðast hvar, nema í Grindavík. Hér fór flokkurinn frá því að vera með einn bæjarfulltrúa yfir í það að vera með þrjá og er núna stærsti flokkurinn í bænum. 

Miðflokkurinn hlaut sex bæjarfulltrúa alls, þar af helminginn í Grindavík þar sem flokkurinn fékk  32,4% atkvæða, Sjálfstæðisflokkurinn 24,8% og tvo bæjarfulltrúa, Framsóknarflokkurinn var með 20,2% og einn bæjarfulltrúa, Rödd unga fólksins fékk 13,2% og einn bæjarfulltrúa, en Samfylkingin náði ekki inn manni og var með 9,3% atkvæða. Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir oddviti Miðflokksins er ekki með einhlíta skýringu á þessum góða árangri.

„Ekki aðra en þá en að við erum helst dæmd af vinnubrögðum okkar undanfarinna fjögurra ára og fólki hugnast greinilega hvað við höfum lagt áherslu á og þá kannski líka auðvitað fólkið á listanum hjá okkur. Það þarf líka sterkan leiðtoga til að leiða þetta inn í svona að fá þrjá menn inn. Ætli þetta séu ekki svolítið margir þættir.
En kanntu þá skýringu á því hvers vegna flokknum gekk svona illa annars staðar?
Nei, ég hef ekki skýringar á því.
Skortir leiðtoga þar eða gott fólk?
Nei, ég vil nú ekki meina það, en það hefur kannski ekki náð einhvern veginn flugi eða aðrir flokkar kannski yfirtekið svolítið þar. ))

Hallfríður segir uppbyggingamál vera helstu málin í bænum, ljúka þurfi byggingu félagsaðstöðu eldri borgara, en mikil áhersla hafi verið lögð á hana sem og uppbyggingu nýs hverfis og endurbætur á sundlauginni. Í ljósi úrslitanna þarf Miðflokkurinn aðeins stuðning eins bæjarfulltrúa til viðbótar til að mynda meirihluta.

„Það má orða það þannig að það eru komnar þreifingar af stað.“

Hún segist ekki geta sagt til um hvenær þær þreifingar verði að formlegum viðræðum. Hún nefnir engan sérstakan flokk sem óska samstarfsflokk, en segir að hlustað verði á rödd kjósenda. Bæjarstjórinn í Grindavík er ekki pólitískur heldur ráðinn í starfið.

„Við höfum tekið ákvörðun um það að halda því til streitu eins og hefur verið undanfarin ár, hann er bara ópólitískur eða því sem næst, hann er bara ráðinn.“

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV