Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Meirihlutaviðræður hafnar í Hafnarfirði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formlegar meirihlutaviðræður eru hafnar í Hafnarfirði og hefjast í vikunni í Mosfellsbæ. Óformlegar viðræður eru í Kópavogi. Oddviti Sjálstæðismanna í Hafnarfirði segir að flokkarnir tveir, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, hafi ekki verið farnir að máta saman stefnumál sín fyrir fundinn. Oddviti Framsóknarmanna sagði í kvöldfréttum í gær að flokkurinn myndi gera meiri kröfur enda bætti hann við sig einum bæjarfulltrúa á kostnað Sjálfstæðisflokks í kosningunum á laugardag.  

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur í Hafnarfirði fengu samtals sex bæjarfulltrúa af ellefu og héldu því meirihluta sínum. Fréttastofa náði tali af Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra og oddvita Sjálfstæðisflokksins, nú á tólfta tímanum. Þá voru flokkarnir tveir að undirbúa sig undir formlegar meirihlutaviðræður og hófust þær í hádeginu. Rósa segir að flokkarnir hafi ekki verið farnir að máta saman stefnumál sín fyrir fundinn. Oddviti Framsóknarmanna sagði í kvöldfréttum í gær að flokkurinn myndi gera meiri kröfur enda bætti hann við sig einum bæjarfulltrúa á kostnað Sjálfstæðisflokks í kosningunum á laugardag.  

Formlegar bæjarstjórnarviðræður hefjast í Mosfellsbæ í vikunni. Listi Framsóknar, sem hlaut stórsigur í kosningunum, ákvað í gærkvöld að hefja viðræður um meirihlutasamstarf við Samfylkinguna, Viðreisn og Vini Mosfellsbæjar, sem allir voru í minnihluta í síðustu bæjarstjórn. Framsóknarflokkurinn fór úr því að vera með engan bæjarfulltrúa í fráfarandi bæjarstjórn yfir í að vera stærsti flokkurinn með fjóra fulltrúa. Samanlagt eru flokkarnir fjórir sem eiga í viðræðum með sjö af ellefu bæjarfulltrúum. Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Mosfellsbæ, seir að kominn hafi verið tími á breytingar frá meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og VG sem varað hefur frá árinu 2006. 

„Mitt fólk er búið að funda og funda, búið að funda við alla flokka, og niðurstaðan er að við erum að hefja viðræður við Samfylkinguna, Viðreisn og Vini Mosfellsbæjar. Okkur finnst það vera ákall kjósenda, fólk vill breytingar og við ætlum bara að svara því kalli og byrja alla vega þessar formlegu viðræður með því,“ segir Halla. 

Orri Vignir Hlöðversson,  oddviti Framsóknarflokksins í Kópavogi, segir að óformlegar viðræður séu við Sjálfstæðisflokkinn en flokkarnir héldu meirihlutanum í kosningum. Það skýrist í dag eða á morgun hvort flokkarnir hefji formlegar viðræður. 

Því er við að bæta að Sjálfstæðisflokkurinn hélt sínum meirihluta bæði á Seltjarnarnesi og í Garðabæ.