Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kirkjumorðið í Kaliforníu var hatursglæpur

epa09950045 Sandria Chou stands in front of police tape waiting for her parents following a shooting that took place in the early afternoon in Laguna Woods, California, USA, 15 May 2022. According to the Orange County Sheriff's Department five people have been critically wounded with one person deceased.  EPA-EFE/CAROLINE BREHMAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lögregla í Los Angeles rannsakar skotárás sem gerð var á kirkjugesti í útbæ borgarinnar í gær sem hatursglæp og hefur formlega handtekið karlmann á sjötugsaldri, sem fullvíst þykir að hafi framið árásina. Lögregla greindi frá þessu á fréttafundi á mánudag. Hinn grunaði morðingi er kínverskur innflytjandi en kirkjugestir voru flestir eða allir innflytjendur frá Taívan, sem Kínverjar gera tilkall til.

Hinn grunaði gekk inn í Geneva-kirkjuna í Laguna Woods í Orange-sýslu, skammt utan Los Angeles, læsti dyrum hennar kirfilega með keðjum, hengilás og lími og hóf skothríð á gestina, sem sátu að sameiginlegum málsverði í samkomusal kirkjunnar að messu lokinni.

Kirkjugestir yfirbuguðu árásarmanninn

Lögregla segir manninn hafa verið vopnaðan tveimur skammbyssum, auk þess sem hann hafi áður falið poka með bensínsprengjum og skotfærum á nokkrum stöðum í húsinu. Hann fékk þó ekki færi á að nýta sér þessar birgðir því þegar hann hafði skotið nokkrum skotum náðu nokkrir úr hópi kirkjugesta að snúa hann niður, afvopna og binda hendur hans og fætur með rafmagnssnúrum.

Einn kirkjugesta lét lífið og fimm særðust í árás mannsins, þar af fjögur lífshættulega. Fórnarlömb hans eru á aldrinum 66 - 92 ára.

Knúinn til illra verka af hatri á Taívan og Taívönum

Lögregla segir morðingjann, hinn 68 ára kínverska innflytjanda David Chou, hafa verð drifinn af hatri á íbúum Taívan, sem ekki viðurkenna stjórnvöld í Kína sem réttmæta ráðamenn eyjunnar.

Chou starfaði sem öryggisvörður í Las Vegas. Lögregla segir hann auðsjáanlega hafa skipulagt ódæðisverk sitt vandlega og ætlað sér að myrða fjölda fólks. Einungis snarræði og hugrekki annarra kirkjugesta hafi komið í veg fyrir að honum tækist það ætlunarverk sitt.